Háskólaráð Borgarfjarðar gaf í dag út sérstakt kynningarblað um Borgarfjörð. Er blaðinu dreift með Morgunblaðinu í dag en verður einnig sent inn á heimili í Borgarbyggð í næstu viku. Heiti blaðsins er „Borgarfjörður – hérað menntunar og menningar.“ Meginviðfangsefni þess er kynning á þeim stofnunum sem heyra undir Háskólaráð Borgarfjarðar, kynning á mennta- og menningarlífi héraðsins auk þess sem þar er að finna umfjallanir um sitthvað sem í gangi hefur verið á liðnum misserum. Það er Skessuhorn ehf. sem hafði umsjón með útgáfunni, f.h. Háskólaráðs sem réði efnistökum. Háskólaráð Borgarfjarðar skipa fulltrúar frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólanum á Bifröst, Menntaskóla Borgarfjarðar, Snorrastofu og Borgarbyggð. Í inngangsgrein blaðsins segir að skólastarf eigi sér langa sögu í Borgarfirði, jafnframt því sem menningarstarf hefur þar löngum staðið í blóma. Von útgefenda sé sú að kynningarblaðið verði til þess að bregða birtu á þá miklu grósku sem nú einkennir mennta- og menningarlíf héraðsins. En undirliggjandi tilgangur með útgáfunni er þó fyrst og fremst að vekja áhuga á héraðinu fyrir væntanlega íbúa, nemendur skóla og annarra sem huga að búferlaflutningum.