Styrkir úr Húsaverndunarsjóði

maí 15, 2007
Nýverið var úthlutað styrkjum úr Húsverndunarsjóði Borgarbyggðar, alls að upphæð 1.400.000. Að sjóðnum standa Borgarbyggð og Sparisjóður Mýrasýslu og auglýst er eftir umsóknum einu sinni á ári. Að þessu sinni bárust einungis tvær umsóknir, báðar úr Borgarnesi. Umsóknirnar töldust báðar hæfar samkvæmt mati menningarnefndar Borgarbyggðar og stjórnar Húsaverndunarsjóðs.
 
 
Styrkina hlutu:
Hollvinasamtök Englendingavíkur vegna lagfæringa á gömlu verslunarhúsunum í Englendingavík: 400.000 krónur
Sólarorka/Páll Björgvinsson arkitekt vegna lagfæringa á gamla mjólkursamlagshúsinu við Skúlagötu í Borgarnesi: 1.000.000 krónur.
Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar fulltrúi Hollvinasamtaka Englendingavíkur og Páll Björgvinsson tóku við styrknum. Á efri myndinni eru (frá vinstri): Jenný Lind Egilsdóttir, stjórnarmaður í stjórn Húsaverndunarsjóðs, Bjarni Helgason formaður sjóðsins, Ingibjörg Hargrave frá Hollvinasamtökunum Englendingavíkur og Sigríður Björk Jónsdóttir stjórnarmaður. Á neðri myndinni er Páll Björgvinsson til vinstri og Bjarni Helgason til hægri. Ljósmyndir: Guðrún Jónsdóttir.
 

Share: