Það er allt annað að sjá þig Borgarnes!

maí 5, 2008
Laugardaginn 3. apríl var almennur hreinsunardagur haldinn í Borgarnesi. Það voru starfsmenn hjá HS verktak sem fóru um bæinn og sóttu þann garðaúrgang sem safnast hafði hjá íbúum. Götur í Borgarnesi hafa verið sópaðar eftir veturinn. Hópar unglinga hafa verið fengnir til að tína rusl á opnum svæðum í Borgarnesi og fjöldi íbúa Borgarness hefur þegið þjónustu og góð ráð Sædísar Guðlaugsdóttur garðyrkjufræðings vegna umhirðu garða sinna.
Nokkrir starfsmenn á skrifstofu Borgarbyggðar notuðu daginn til að hreinsa í kringum ráðhúsið. Það tókst mjög vel og er núna varla ruslörðu að sjá fyrir utan húsið.
Að lokinni velheppnaðri hreinsun um allan bæ var efnt til grillveislu í Skallagrímsgarði. Þar stóðu þau sveitarstjórnarfulltrúarnir Björn Bjarki Þorsteinsson og Sigríður Björk Jónsdóttir vaktina við grillið ásamt Guðmundi Skúla Halldórssyni hjá HS verktak.
Þess er vænst að íbúar og starfsmenn fyrirtækja hjálpist öll að við að halda sveitarfélaginu þrifalegu. Göngum fram með góðu fordæmi!
 
Myndirnar tók Helgi Helgason heilbrigðisfulltrúi sem tók þátt i hreinsuninni við ráðhúsið.

Share: