Ársreikningur Borgarbyggðar fyrir árið 2010 var lagður fram til fyrri umræðu á fundi sveitarstjórnar þann 28. apríl sl. en seinni umræða verður á sveitarstjórnarfundi þann 12. maí nk. Niðurstaða ársreikningsins ber með sér að rekstur Borgarbyggðar er að nýju kominn á réttan kjöl eftir áföll kreppunnar haustið 2008. Heildartekjur sveitarsjóðs og B-hluta fyrirtækja á árinu 2010 voru 2.363 milljónir en rekstrarútgjöld án fjármagnsliða voru 2.140 milljónir. Fjármagnsgjöld voru alls 109 milljónir. Rekstrarniðurstaða Borgarbyggðar, samantekin fyrir A og B hluta, á árinu 2010 var því jákvæð um 114 milljónir sem er tæpum 69 milljónum betri niðurstaða en endurskoðuð fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir og 273 milljónum betri niðurstaða en árið 2009.
Veltufé frá rekstri var tæpar 273 milljónir eða 11,5% af rekstrarartekjum, sem er um 78 milljónum hærra en áætlað var. Sveitarfélagið fjárfesti fyrir 1.097 milljónir á árinu
2010. Helstu fjárfestingar voru kaup á mennta- og menningarhúsinu Hjálmakletti fyrir 903 milljónir, bygging hjúkrunarálmu við Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi fyrir 182
milljónir og framkvæmdir við fasteignir, götur og veitur fyrir um 12 milljónir. Eignir sveitarfélagsins voru í árslok 5.380 milljónir. Heildarskuldir og skuldbindingar voru 4.238 milljónir, en tekin voru ný lán fyrir 1.135 milljónir á árinu. Hafa ber í huga að við
kaup á Hjálmakletti féll niður skuldbinding vegna leigusamnings sem nettó var metin á 1.151 milljón. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok var 1.141 milljón og hækkaði um 865 milljónir á árinu, að mestu vegna breytinga á mati á lóðum og lendum í eigu
sveitarfélagsins í kjölfar álits reikningsskilanefndar sveitarfélaga um færslu á lóðum og lendum í reikningsskilum sveitarfélaga.
Frá árinu 2009 hafa tekjur Borgarbyggðar lækkað um 1,2%. Það eru fyrst og fremst útsvarstekjur sem hafa lækkað, en atvinnulíf í Borgarbyggð hefur orðið fyrir ýmsum áföllum og hefur það m.a. leitt til fækkunar íbúa. Á sama tíma hefur hins vegar tekist að lækka rekstrarkostnað sveitarfélagsins um 6,2%. Þess sjást glögg merki í ársreikningi fyrir árið 2010 að þær hagræðingaraðgerðir sem gripið var til hafa skilað tilætluðum
árangri og eru lykillinn að þeim viðsnúningi sem orðið hefur í rekstri Borgarbyggðar.