Samstarfssamningur ljósmyndasafna

apríl 11, 2008
Ljósmyndasafn Akraness og Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar hafa gert með sér samstarfssamning um gagnkvæm afnot af ljósmyndum vegna verkefna vorið 2008. Um er að ræða um gagnkvæm gjaldfrjáls afnot safnanna af ljósmyndum vegna sýninganna „Hernámið“ sem verður á Akranesi og „Börn í 100 ár“ sem verður í Borgarnesi.
Samningurinn er gerður á grundvelli viljayfirlýsingar Akranessbæjar og Borgarbyggðar frá árinu 2007 um menningarmál, en þar er m.a. kveðið á um að Sveitarfélögin stefni að því að eiga samstarf um hvers konar hvers konar verkefni tengd menningu og menningar- og sögutengdri ferðaþjónustu eftir því sem tækifæri gefast. Jafnframt skulu starfsmenn sveitarfélaganna sem sinna menningarmálum eiga samstarf og miðla upplýsingum.
Hér er um merkan áfanga að ræða í samstarfi safnanna á Akranesi og í Borgarnesi.
Myndatexti:
Hluti af undirbúningi þessa samstarfs var heimsókn Gerðar Jóhönnu Jóhannsdóttur deildarstjóra Ljósmynda- og héraðsskjalasafns Akraness í Safnahús Borgarfjarðar fyrir stuttu, en þar hitti hún m.a. Jóhönnu Skúladóttur, héraðsskjalavörð (til vinstri á myndinni) og var myndin tekin þegar þær skoðuðu skjalageymslurnar. Ljósmynd: Guðrún Jónsdóttir
 

Share: