Fyrsta skóflustungan tekin að nýjum leikskóla Andabæjar á Hvanneyri

apríl 10, 2008
Föstudaginn 4. apríl síðastliðinn, var tekin fyrsta skóflustungan að nýjum leikskóla Andabæjar við Arnarflöt 1 á Hvanneyri. Það voru elstu nemendur leikskólans sem tóku fyrstu skóflustunguna, en því næst tók starfsmaður Jörva efh. á Hvanneyri fyrstu vélskóflustunguna, með einn af gröfuvélum Jörva. Til gamans má geta þess að Valdís Magnúsdóttir leikskólastjóri reyndi á tækjahæfileika sína í framhaldinu með því að taka skóflufylli af jarðvegi með gröfunni. Nýji leikskólinn verður þriggja deilda leikskóli á einni hæð Stærð hússins verður 587 m2 en stærð lóðar er 5894 m2.
Verklok húss og hluta lóðar (1. verkáfangi) eru 15. desember 2008. Verklok seinni hluta lóðar (2. verkáfangi) eru 1. ágúst 2009.
Verkið var boðið út í febrúar síðastliðinn og voru tilboð opnuð mánudaginn 3. mars 2008 í Ráðhúsi Borgarbyggðar. Alls bárust 5 tilboð í verkið. Það var Byggingafélagið Nýverk í Borgarnesi sem átti lægsta tilboðið í verkið. Þann 28. mars sl. undirrituðu Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri og Ólafur Axelsson hjá Nýverki undir verksamning verksins, en hann hljóðar uppá 180.043.355 kr.

Share: