Snorrastofa í Reykholti er að hrinda af stað stóru rannsóknarverkefni um norræna goðafræði. Verkefnið er gríðarlega viðamikið og munu margir helstu fræðimenn í greininni, bæði íslenskir og erlendir, koma að vinnslu þess. Verkefnið varð að veruleika fyrir áeggjan Jónasar Kristjánssonar, fyrrverandi forstöðumanns Árnastofnunar og fulltrúa í stjórn Snorrastofu, og strax á fyrstu stigum var ákveðið að koma verkefninu á fót í náinni samvinnu við ReykjavíkurAkademíuna. Í kjölfarið hafa fræðimenn við nokkrar innlendar og erlendar rannsóknarstofnanir komið til liðs við verkefnið.
Markmiðið er að gefa út nokkurra binda yfirlitsrit um norræna goðafræði þar sem gerð verður grein fyrir öllum helstu heimildum um hana, þ.e. fornleifum, örnefnum og rituðu máli. Enn fremur verður gerð ítarleg grein fyrir öllum helstu rannsóknum fræðimanna um efnið, en slíkt felur í sér bæði rannsóknarsögu greinarinnar, umfjöllun um allar helstu kenningar og rannsóknarniðurstöður sem komið hafa fram um norræna goðafræði, einkum á síðustu áratugum. Ekkert yfirlitsrit af þessu tagi hefur komið fram síðustu hálfa öldina, en á þeim tíma hafa aftur á móti orðið miklar framfarir í rannsóknum á þessu sviði og því er orðin afar brýn þörf fyrir rit á borð við fyrirhugað verk, þar sem hægt er að ganga að upplýsingum um allt það nýjasta sem fram hefur komið ásamt því sem eldri rannsóknir hafa sýnt fram á.
Helgina 5.-6. apríl s.l. var haldin undirbúningsráðstefna í Reykholti þar sem hópur íslenskra og erlendra fræðimanna, lagði fyrstu drög að uppbyggingu ritsins. Stefnt er að því að það verði grundvallarrit í greininni sem þjóna mun sem undirstaða rannsókna á komandi áratugum. Til að slíkt megi verða og ritið þjóni þessum tilgangi sínum á vettvangi fræðimanna og háskólanemenda er gert ráð fyrir að það verði gefið út á ensku. Reiknað er með að það taki 6-10 ár í vinnslu. Vinnuheiti hefur verið ákveðið: PRE-CHRISTIAN RELIGIONS IN THE NORTH.
Þátttakendur í þessari stefnumótun voru:
Bergur Þorgeirsson, bókmenntafræðingur og forstöðumaður Snorrastofu.
Viðar Hreinsson, bókmenntafræðingur og framkvæmdastjóri
ReykjavíkurAkademíunnar.
Anders Andrén, prófessor í fornleifafræði við Háskólann í Stokkhólmi.
Annette Lassen, doktor í fornnorrænum fræðum og dósent í dönskum bókmenntum
við H.Í.
Else Mundal, prófessor í norrænum fræðum við Háskólann í Bergen.
Evy Beate Tveater, málfræðingur og verkefnisstjóri við Snorrastofu.
Geir Waage, sóknarprestur í Reykholti.
Gísli Sigurðsson, rannsóknarprófessor við Árnastofnun.
Ingunn Ásdísardóttir, doktorsnemi í norrænum fræðum við Háskóla
Íslands.
Jens Peter Schjødt, prófessor í norrænum fræðum við Árósaháskóla.
John Lindow, prófessor í norrænum fræðum við University of California,
Berkeley.
John McKinnell, prófessor í norrænum fræðum við Durham University,
Englandi.
Jónas Kristjánsson, fyrrv. forstöðumaður Árnastofnunar.
Margaret Clunies Ross, prófessor við University of Sydney, Ástralíu
Stefan Brink, prófessor í norrænum fræðum við King’s College, University of
Aberdeen.
Terry Gunnell, dósent í þjóðfræði við Háskóla Íslands.