Í Reykholtskirkju hefur verið komið fyrir nýju altari í hliðarstúku kirkjunnar. Stefán Ólafsson smíðaði altarið. Hin gamla altarismynd Reykholtskirkju frá því á 16. öld prýðir stúkuna. Þá hefur listiðnaðarkonan Margrét Gunnlaugsdóttir ofið forkunarfagran altarisdúk.
Undanfarin ár hafa skilað miklum árangri í uppbyggingu Reykholtsstaðar. Reykholtskirkja- Snorrastofa stendur fyrir fjölskrúðugri starfsemi, meðal annars sagnfræðilegum rannsóknum og útgáfu niðurstaðna af þeim. Þá hefur kirkjan og Snorrastofa í samstarfi við Þjóðminjasafn og fleiri aðila unnið að því, að gjöra arfleifð staðarins sýnilegri en verið hefur. Grafnar hafa verið upp rústir allra kirkna á staðnum frá því um árið 1000 fram til 1887, er síðasta torfkirkjan var rifin. Fátt eitt er enn til af búnaði þessara kirkna, sumt á Þjóðminjasafni. Nú hafa valdir gripir þaðan verið settir upp í nýju kirkjunni samkvæmt samningi Reykholtskirkju og Þjóðminjasafns. Altarisbríkin gamla er komin heim eftir meira en aldar fjarveru frá staðnum. Hennar er líklega fyrst getið í afhendingargjörð kirkjunnar, þegar síra Jón Einarsson afhenti síra Ólafi Gilssyni staðinn árið 1518. Frá svipuðum tíma er skálin í skírnarfontinum í kirkjunni, sem einnig er nú eign Þjóðminjasafns.
Báðir voru síra Jón og síra Ólafur merkismenn á sinni tíð. Síra Jón varð prestur í Reykholti um 1510, en hafði áður verið ráðsmaður herra Stefáns Jónssonar og herra Ögmundar Pálssonar í Skálholti og styrkti sá síðarnefndi síra Jón með oddi og egg til byskupstignar á Hólastóli, en herra Jón Arason varð fyrir valinu. Síra Ólafur Gilsson virðist hafa verið prestur í Reykholti árið 1508 og forveri síra Jóns að líkindum. Hann var jafnframt prófastur á Ströndum frá sama tíma unz hann tók aftur við Reykholti árið 1518. Í prestasögum sínum kallar síra Jón Halldórsson hann”mikinn framkvæmdar- og fylgismann”. Hafi hann dregið mikinn rekavið norðan úr Trjekyllisvík á Ströndum og endurbyggt kirkju í Reykholti, sem var svo hrörleg orðin, að hún var virt á 40 kýrverð, en eftir viðgerðina var hún virt á 400. Fornleifarannsókn í Reykholti staðfestir, að þar stóð allmikil timburkirkja frá 13. öld fram undir siðbót. Fyrir utan altarisbrík Skarðskirkju er altarisbríkin í Reykholtskirkju nú líklega eini gripurinn sinnar gerðar í kirkju í Vestfirðingafjórðungi. Undir bríkina hefur Stefán Ólafsson kirkjusmiður smíðað altari í stíl 16. aldar. Altarið verður prýtt eftirgerð altarisklæðis úr Reykholtskirkju frá árinu 1719, sem Margret Gunnlaugsdóttir hefur unnið. Altarisklæðið frá 1719 gæti verið verk maddömu Hólmfríðar Guðmundsdóttur, ekkju síra Halldórs Jónssonar. Hann dó árið 1704, en frú Hólmfríður, sem kölluð var prófastamóðir og fædd var árið 1641, lifði mann sinn lengi; dó haustið 1731. Önnur maddama kemur ekki síður til greina; Helga Jónsdóttir, seinni kona síra Hannesar Halldórssonar, sem tók við staðnum af föður sínum. Hún var fædd 1678, dáin 1730.
Þessir gripir spanna fimm alda sögu kirkjuhalds í Reykholti. Samningurinn við Þjóðminjasafnið hefur opnað einstakt færi til þess að endurheimta gamla gripi til sýnis og notkunar í hjeraði, sem burtfluttir hafa verið. Um leið og fagnað er þessum áfanga í endurheimt gamals búnaðar á staðnum er þeim þakkað, sem lagt hafa verkefninu lið. Munar þar mest um Menningarsjóð Sparisjóðs Mýrasýslu og Menningarsjóð Borgarbyggðar, Þjóðminjasafnið og þau Stefán og Margreti.
Í kirkjunni hefur einnig verið komið fyrir gömlum minningartöflum um bændafólk í sókninni frá 18. og 19. öld, sem verið hafa á Þjóðminjasafni.