Stóra upplestrarkeppnin

mars 23, 2009
Sigurvegarar keppninnar ásamt kennurum.
Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar var haldin í Þinghamri, Varmalandi miðvikudaginn 18.mars. Þetta var vesturlandshluti keppninnar og áttust við lið frá Grunnskóla Borgarfjarðar, Varmalandsskóla, Grunnskólanum í Borgarnesi, Heiðarskóla, Grunnskólanum í Búðardal og Laugargerðisskóla. Það var nemandi Grunnskóla Borgarfjarðar, Þorsteinn Bjarki Pétursson frá Geirshlíð í Flókadal sem bar sigur úr býtum. Annað og þriðja sætið hrepptu þær Fanney Guðjónsdóttir og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir nemendur Varmalandsskóla.
Á hátíðinni voru einnig flutt mjög góð tónlistaratriði frá nemendum Tónlistarskóla Borgarfjarðar á Varmalandi. Nemendur 7. bekkja á vesturlandi voru búnir að keppa innbyrðis í sínum skólum áður en þeir bestu komu saman í Þinghamri og spreyttu sig á textabrotum úr bókinni Leyndardómar ljónsins eftir Brynhildi Þórarinsdóttir, þá völdu nemendur úr nokkrum ljóðum Arnar Arnarsonar til flutnings. Í lokaumferðinni fluttu nemendur ljóð að eigin vali. Nemendur stóðu sig sérstaklega vel að mati viðstaddra og var vissulega erfitt að meta hver væri bestur. En eins og Laufey Karlsdóttir formaður dómnefndar sagði þá voru allir þátttakendur sigurvegarar dagsins þar sem sigurinn fælist í því að koma upp og flytja texta og ljóð svo listavel sem þau gerðu.
 

Share: