„Ferðin á heimsenda“ í Lyngbrekku

mars 10, 2011
Leikdeild Ungmennafélagsins Skallagríms frumsýnir leikritið „Ferðin á heimsenda“ eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur í félagsheimilinu Lyngbrekku föstudaginn 11. mars næstkomandi. Leikstjóri er Rúnar Guðbrandsson og er þetta fjórða leikverkið sem hann leikstýrir hjá leikdeild Skallagríms. Leikritið er barnaleikrit en höfðar til allra aldurshópa. Þetta er fallegt og hugljúft ævintýri með söngvum, tónlist og glensi.
 
Við fylgjumst með ferð þriggja ferðalanga á heimsenda með gripinn Geislaglóð til að bjarga framtíð álfanna í Ljósalandi. Galdramaðurinn Hrappur og hjálparhella hans sækjast eftir Geislaglóð og ferðalangarnir þrír verða að hafa sig alla við að koma í veg fyrir það, en þremenningarnir rekast einnig á ýmsar kynjaverur, s.s. tröll, vetrarálfa, köngulær og fleira á ferð sinni.
Æfingar hófust af fullum krafti í janúar. Með helstu hlutverk í Ferðinni á heimsenda fara: Eiríkur Jónsson, Rebekka Atladóttir, Margrét Hildur Pétursdóttir, Lára Margrét Karlsdóttir og Rúnar Gíslason. Á meðfylgjandi mynd sem Olgeir Helgi Ragnarsson tók má sjá leikarana Margréti Hildi Pétursdóttur, Láru Margréti Karlsdóttur og Rúnar Gíslason.

Share: