Í grunnskólanum á Varmalandi stendur nú yfir umhverfisvika. Eins og nafnið gefur til kynna þá er þema vikunnar umhverfið en skólinn vinnur nú að því að fá að flagga Grænfánanum eftirsótta. Hefðbundin bekkjarkennsla er brotin upp en list, verkgreina og íþróttatímar eru látnir halda sér. Nemendur yngri deildar skólans þ.e. 1. – 7. bekkjar vinna að verkefnum tengdum umhverfinu, endurvinnslu og nýtingu hluta sem hafa lokið sínu hlutverki að sinni. Lögð er áhersla á fræðslu um umhverfið, náttúruna og auðlindir jarðar.
Föstudaginn 6. mars verður skólinn opinn gestum og gangandi frá kl. 11.00. Þá munu nemendur og kennarar sýna afurðir þemavikunnar. Einnig verður opinn nytjamarkaður á fötum og skóm og rennur ágóðinn til vinnu við gerð skólagarðs við Varmalandsskóla. Kynnt verða úrslit í samkeppni um Grænfánamerki og einkennisorð skólans. Nemendur 9. bekkjar verða með vöfflusölu en þau safna nú í ferðasjóð líkt og á opnum degi síðasta vor.