Borgarbyggð innleiðir þjónandi leiðsögn

desember 4, 2025
Featured image for “Borgarbyggð innleiðir þjónandi leiðsögn”

Borgarbyggð hefur hafið innleiðingu á þjónandi leiðsögn, sem er nálgun sem byggir á Gentle Teaching hugmyndafræðinni. Innleiðing á þjónandi leiðsögn hefur margvíslegan ávinning, bæði fyrir starfsfólk og þá sem þjónustu þiggja. Þjónandi leiðsögn byggir á einstaklingsmiðaðri nálgun, þar sem samskipti á milli starfsfólks og notenda eru þungamiðjan. Markmiðið er að efla öryggi, vellíðan og uppbyggileg samskipti í allri þjónustu við fólk, þar sem mannleg reisn, virðing og umhyggja eru í forgrunni.

Haldin hafa verið fjögur grunnnámskeið og tvö framhaldsnámskeið sem allt að 80 starfsmenn Borgarbyggðar hafa sótt. Námskeiðshaldari er Arne Friðrik Karlsson, þroskaþjálfi og mentor í þjónandi leiðsögn.

Innleiðing er nú hafin í eftirfarandi stofnunum:

  • Búsetunni
  • Öldunni
  • Félagsstarfi aldraðra
  • Óðal
  • Frístund

Þjónandi leiðsögn byggir á því að:

  • mæta fólki af virðingu og samkennd
  • skapa öryggi og traust
  • forðast refsingar, boð og bönn

Rannsóknir hafa sýnt að þjónandi leiðsögn eykur lífsgæði, dregur úr vanlíðan, bætir samskipti, minnkar ágreining og dregur úr krefjandi hegðun með því að byggja upp öryggi og traust. Jafnframt styrkir slík hugmyndafræði fagmennsku starfsfólks þar sem áhersla er lögð á samkennd og sjálfsskoðun.

Það er því mikil ánægja að innleiðing á Þjónandi leiðsögn sé hafin.


Share: