Fegrun umhverfis er samstarfsverkefni sveitarfélagsins og íbúa þess. Vor hvert er hreinsunarátak í þéttbýli og dreifbýli þar sem íbúar, hópar, skólar og sveitarfélagið taka höndum saman og hreinsa rusl og fegra nærumhverfi sitt.
Umhverfisviðurkenningar
Borgarbyggð veitir árlega umhverfisviðurkenningar þar sem veittar eru viðurkenningar fyrir snyrtilegasta bændabýlið, snyrtilegustu lóð við íbúðarhús, snyrtilegustu lóð við atvinnuhúsnæði auk sérstakrar viðurkenningar sem veitt er er veitt einstaklingi, hópi eða fyrirtæki sem vakið hefur athygli vegna vinnu að umhverfismálum.
Græn svæði í fóstur
Íbúar sem vilja taka að sér afmörkuð svæði í bæjarlandinu geta gert samning við sveitarfélagið um „grænt svæði í fóstur“. Þá taka íbúar að sér afmörkuð verkefni á afmörkuðu svæði, án þess að skerða aðgengi annarra íbúa að svæðinu.
Snyrting gróðurs á lóðamörkum
Garðeigendur í þéttbýli sveitarfélagsins eru vinsamlega beðnir um að snyrta trjágróður sem kominn er út fyrir lóðamörk. Ástæða þess er að tryggja öruggar og greiðar leiðir um göngustíga bæjarins fyrir i hjólafólk og gangandi vegfarendur og ekki síður er það mikilvægt vegna snjómoksturs og hálkuvarna.
Ekki er heimilt að planta hávöxnum trjátegundum nær lóðamörkum aðliggjandi lóða en 4,0 m og sé trjám eða runnum plantað við lóðamörk samliggjandi lóða skal hæð þeirra ekki verða meiri en 1,8 m. nema lóðarhafar beggja lóða séu sammála um annað. Við staðsetningu trjáa á lóð sem ætlað er að vaxi frjáls skal taka tillit til skuggavarps á viðkomandi lóð og nágrannalóðum. Ef lóðarmörk liggja að götu, gangstíg eða opnu svæði má trjágróður ná meiri hæð, enda komi til samþykki veghaldara eða umráðaaðila viðkomandi svæðis.
Lóðarhafa er skylt að halda vexti trjáa og runna á lóðinni innan lóðarmarka. Sinni hann því ekki og þar sem vöxtur trjáa eða runna fer út fyrir lóðarmörk við götur, gangstíga eða opin svæði er veghaldara eða umráðamanni svæðis heimilt að fjarlægja þann hluta er truflun eða óprýði veldur, á kostnað lóðarhafa að undangenginni aðvörun.
Fjallað er um gróður á lóðamörkum í kafla 7. 2 í byggingarreglugerð og í lögreglusamþykkt fyrir Borgarbyggð.