Skólastefna

Skólastefna Borgarbyggðar 2016-2020

 

Meginmarkmið skólastefnu Borgarbyggðar er að stuðla að alhliða þroska, lýðheilsu og almennri heildstæðri menntun allra barna og ungmenna í Borgarbyggð. Lögð er áhersla á nám barna og ungmenna, en ekki síður kennara og annars starfsfólks alla ævina í sameiginlegu skóla- og lærdómssamfélagi. Undirstrikuð eru helstu einkenni og sérstaða skóla í Borgarbyggð, en hún snýr meðal annars að menningu svæðisins, náttúru og útikennslu, leiðtogahæfni og samstarfi skóla. Borgarbyggð hefur alla burði til að standa vel að námi allra barna og ungmenna. Lögð er áhersla á að kennarar, annað starfsfólk skóla, foreldrar og allir íbúar styðji  við þroska og framfarir nemenda. Er skólastefnan áskorun til allra um að taka þátt í því uppeldi.

 

Í skólastefnunni er annars vegar lögð áhersla á vellíðan, samkennd og vináttu barna og ungmenna. Hins vegar er stefnt að árangri og metnaði  í skólastarfi.

 

Öllum börnum og ungmennum á að líða vel á skólagöngu sinni, finna til öryggis, samkenndar og vináttu. Það er helsta áskorun stjórnenda, kennara og annars starfsfólks í samvinnu við foreldra að sjá til þess að skólabragurinn einkennist af einkunnarorðum og hornsteinum skólastefnunnar, sem eru gleði, metnaður, samkennd og vinátta. Sátt ríki um kurteisi og virðingu í framkomu, umburðarlyndi og samkennd. Einnig á menning skólans að byggja á gleði, áhuga og virkni allra í skólanum.

 

 Árangur í skólastarfi snýst um þá þekkingu, leikni og hæfni sem nemendur öðlast á skólagöngu sinni. Þá er átt við þekkingu á staðreyndum og aðferðum, vitsmunalega og verklega leikni og hæfni til að nýta sér þá þekkingu og leikni. Hver skóli tilgreinir í skólanámskrá hvernig námsmati er háttað. Einnig eru samræmdar mælingar nýttar. Í skólastefnunni er lögð áhersla á að námsmatið sé uppbyggilegt og sýni styrkleika nemenda.

 

Með skólastefnu sinni undirstrikar Borgarbyggð að hver skóli móti sér sérstöðu í skólanámskrá og tilgreini hvernig innra starf skólans er skipulagt.

 

Uppsetning skólastefnunnar er með þeim hætti að fyrst er tilgreint meginmarkmið hvers þáttar. Því næst er framtíðarsýnin sett fram sem er leiðarljós fyrir starfsemina. Lagðar eru helstu línur um áherslur og innihald hvers þáttar og hvaða hlutverk og ábyrgð hver aðili skólastarfsins hefur. Loks eru sett fram viðmið um mat á árangri.

 

Skólastefnu Borgarbyggðar er ætlað að setja fram sameiginlega sýn, svo að skólasamfélagið gangi í takt. Þannig getur skólastefnan orðið vegvísir að því að efla skólana í Borgarbyggð. Við gerð starfs- og fjárhagsáætlana verður tekið mið af þeim áherslum sem birtast í stefnunni og þeim fylgt eftir.

 

Í Borgarbyggð eru starfræktir tveir grunnskólar, fimm leikskólar, tónlistarskóli, menntaskóli og símenntunarmiðstöð. Samkvæmt stjórnskipulagi Borgarbyggðar heyra leikskólar, grunnskólar og tónlistarskólinn undir Fjölskyldusvið Borgarbyggðar. Fræðslunefnd fer með umboð Borgarbyggðar er varðar málefni leikskóla, grunnskóla og tónlistarskólans eftir því sem lög og reglugerðir kveða á um og sveitarstjórn kunna að fela henni hverju sinni.

 

Leikskólar

 

Samkvæmt lögum um leikskóla bera sveitarfélög ábyrgð á starfsemi leikskóla og eiga að tryggja börnum leikskóladvöl. Borgarbyggð setur stefnu fyrir starfsemi leikskóla sem skólanámskrár þeirra byggja á og ber ábyrgð á húsnæði og búnaði leikskóla, skólaþjónustu, mati og eftirliti, öflun og miðlun upplýsinga og á framkvæmd leikskólastarfs í sveitarfélaginu. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og er fyrir öll börn undir skólaskyldu aldri.

 

Grunnskólar

 

Samkvæmt lögum um grunnskóla bera sveitarfélög ábyrgð á rekstri grunnskóla. Borgarbyggð setur stefnu fyrir starfsemi grunnskóla sem skólanámskrár þeirra byggja á og ber ábyrð á húsnæði og búnaði grunnskóla, skólaþjónustu, mati og eftirliti, öflun og miðlun upplýsinga og á framkvæmd grunnskólastarfs í sveitarfélaginu. Grunnskólanám er skylda og skulu öll börn og unglingar á aldrinum 6-16 ára sækja grunnskóla.

 

Framhaldsskólar

 

Þau ungmenni sem lokið hafa grunnskólanámi eiga rétt á að hefja nám í Menntaskóla Borgarfjarðar. Þeir eiga jafnframt rétt á því að stunda nám í framhaldsskóla til 18 ára aldurs vegna fræðsluskyldunnar.