Aðrir skólar í Borgarbyggð

Háskólinn á Bifröst

Háskólinn á Bifröst á rætur að rekja  til Samvinnuskólans sem var stofnaður árið 1918 í Reykjavík og hóf starfsemi í desember.Sumarið 1955 var skólinn fluttur að Bifröst í Norðurárdal í Borgarfirði og hefur verið starfræktur þar síðan. Þá urðu mikil tímamót í sögu skólans. Sr. Guðmundur Sveinsson tók við sem skólastjóri af Jónasi Jónssyni, sem lét af störfum fyrir aldurs sakir. Jafnframt var skólinn endurmótaður og endurskipulagður frá grunni sem heimavistarskóli. Nú hefur hins vegar risið myndarlegt háskólaþorp á Bifröst.

Bifröst er einstakur skóli með sögu sem spannar næstum 100 ár. Skólinn er svokallaður kampusháskóli og hefur þróað og innleitt sérstaka kennslufræði. Í dag er Háskólinn á Bifröst fjölbreyttur háskóli, sem býður nemendum sínum upp á fræðslu, þekkingu og þjálfun í viðskiptafræði og viðskiptalögfræði sem og heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði. Hlutverk skólans er að búa nemendur undir ábyrgðar-, forystu- og stjórnunarstörf í innlendu og alþjóðlegu samkeppnisumhverfi.

Nánari upplýsingar um Háskólann á Bifröst má nálgast á heimasíðu hans.

Landbúnaðarháskóli Íslands

Landbúnaðarháskóli Íslands er reistur á grunni öflugrar rannsóknastofnunar og tveggja gróinna menntastofnana á landbúnaðarsviði, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Garðyrkjuskóla ríkisins, Reykjum í Ölfusi. Landbúnaðarháskóli Íslands tók til starfa í upphafi árs 2005.

Landbúnaðarháskóli Íslands hefur mikla sérstöðu meðal háskóla hérlendis. Þessi sérstaða felst fyrst og síðast í viðfangsefni skólans sem er náttúra Íslands – nýting, viðhald og verndun. Viðfangsefni kennslu og rannsókna við Landbúnaðarháskóla Íslands er því landið og það sem á því lifir.

Landbúnaðarháskóli Íslands er lítill háskóli sem einnig markar honum sérstöðu. Andrúmsloft kennslunnar og félagslífsins verður þar af leiðandi mun persónulegra en ella enda mikið um hópavinnu og sameiginlega úrlausn verkefna. Námsbrautir skólans eru einungis í boði við Landbúnaðarháskólann en brautirnar eru hvort tveggja á starfsmennta- og á háskólasviði og er mikil samlegð á milli skólastiganna.

Nám á háskólabrautum og í búfræði er kennt á Hvanneyri í Borgarfirði og á Keldnaholti. Nám á garðyrkjubrautum er kennt á Reykjum í Ölfusi, skólinn er staðsettur fyrir ofan sundlaugina í Hveragerði.

Nánari upplýsingar um Landbúnaðarháskóla Íslands má nálgast á heimasíðu hans.

Menntaskóli Borgarfjarðar

Menntaskóli Borgarfjarðar var formlega stofnaður 4. maí 2006 með staðfestingu menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sem um leið tók fyrstu skóflustunguna að skólabyggingunni. Þann 11. júlí 2006 samþykkti hluthafafundur formlega tilveru skólans og kosin var stjórn sem tók við af undirbúningsstjórn skólans. Þann fyrsta ágúst 2006 tók verkefnisstjóri til starfa við undirbúning skólastarfs og 1. febrúar 2007 tók skólameistari til starfa ásamt aðstoðarskólameistara. Kennarar voru síðan ráðnir til starfa frá 1. júní 2007 og skólinn settur við formlega athöfn í Skallagrímsgarði í Borgarnesi þann 22. ágúst 2007.

Skólinn er einkahlutafélag og eru aðstandendur hans um 160 talsins. Stærstu hluthafarnir voru í upphafi Sparisjóður Mýrasýslu og Borgarbyggð. Frá upphafi undirbúnings Menntaskóla Borgarfjarðar var lögð á það áhersla að skólinn færi ótroðnar slóðir í starfsháttum og yrði í fremstu röð framhaldsskóla í uppeldi og kennslu. Stjórn skólans ákvað fljótlega að í boði yrði nám á fjórum námsbrautum til að byrja með þ.e. starfsbraut, almennri braut, félagsfræðabraut og náttúrufræðibraut. Tvær síðastnefndu brautirnar eru til stúdentsprófs. Meðal nýjunga í skólastarfinu má nefna að stúdentsprófi ljúka nemendur að jafnaði á þremur árum og áhersla er lögð á leiðsagnarmat í stað hefðbundinna prófa. Formleg annarpróf eru ekki haldin í desember og maí og kennslutími á önn er því fjórum til fimm vikum lengri en almennt gerist í framhaldsskólum.

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um Menntaskóla Borgarfjarðar á heimasíðu þeirra.

Símenntun á Vesturlandi

Símenntun á Vesturlandi rekur starfsemi sína í Borgarbyggð á Bjarnarbraut 8. Símenntun á Vesturlandi er ein níu símenntunarmiðstöðva á landsbyggðinni. Símenntun á Vesturlandi er sjálfseignarstofnun og er á fjárlögum ríkisins. Árlega er gerður samningur á milli Símenntunnar og ríkisins, samkvæmt ríkisfjárlögum hverju sinni, en miðstöðin fær árlega framlag til að standa straum af launa- og húsnæðiskostnaði.

Markmið með starfsemi Símenntun á Vesturlandi er að efla og styrkja íslenskt atvinnulíf og samfélag með endur- og símenntun sem tekur mið af þörfum atvinnulífs og einstaklinga. Sérstaklega skal stofnunin huga að þörfum íbúa á Vesturlandi í þessu sambandi. Hlutverk Símenntun á Vesturlandi er að auka þekkingu og stuðla að bættum búsetuskilyrðum á Vesturlandi með því að greina og svara menntunarþörf og hvetja til símenntunar í samvinnu við atvinnulíf og íbúa svæðisins. Símenntun á Vesturlandi er miðja þróunar og miðlunar þekkingar fullorðinna á svæðinu og fyrsti kostur íbúa og atvinnulífs í öflun hennar. Símenntun á Vesturlandi tengir saman þá sem vinna að miðlun og öflun þekkingar fullorðinna á svæðinu og stendur fyrir ýmsu námsframboði í fullorðinsfræðslu, auk náms- og starfsráðgjafar og greiningar á fræðsluþörf innan fyrirtækja

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um Símenntun á Vesturlandi á heimasíðu þeirra.