Meginhlutverk Vinnuskólans er að veita ungmennum úr efstu bekkjum grunnskóla uppbyggileg sumarstörf og fræðslu í öruggu starfsumhverfi. Öllum ungmennum sem nýlokið hafa 7., 8., 9. 10. bekk eða fyrsta ári í framhaldsskóla býðst að koma til starfa við fjölbreytt verkefni (fædd 2007-2011). Starfað er að öllu jöfnu frá júní til júlí ár hvert og leitast er við að veita öllum ungmennum búsettum í Borgarbyggð starf í Vinnuskólanum. Vinnuskólinn er bæði vinna og skóli, lögð er áhersla á gleði, vinnu og lærdóm þar sem námsefni og verkefni vinnuskólans samanstendur af fræðslu, tómstundum og vinnu.
Markmið vinnuskólans er að undirbúa unglingana í vinnu áður en haldið er út á hinn almenna vinnumarkað. Lögð er áhersla á samskiptareglur, ástundun, vinnusemi og virðingu gagnvart vinnu. Einnig eru grundvallaratriði í vinnubrögðum kynnt og notkun verkfæra. Þá eru félagsleg samskipti og samvinna mikilvægir þættir í vinnuskólanum auk fræðslu og kynningum af ýmsu tagi, sem fléttað er inn í starfsemina.
Allir nemendur fá umsögn í lok Vinnuskólans sem getur nýtist vel þegar sótt er um önnur störf. Daglegur rekstur skólans er í höndum verkefnastjóra tómstundamála, yfirflokkstjóra og flokkstjóra.
Börn fædd 2011 geta valið að vinna 4 vikur og þurfa vikurnar ekki að vera samfelldar og stendur þeim til boða að vinna 3 klst á dag alla virka daga. Börnum verður ýmist boðin vinna fyrir hádegi (kl. 08:30-11:30) eða eftir hádegi (kl. 12:30-15:30) en á föstudögum vinna allir fyrir hádegi.
Ungmenni fædd (2007, 2008, 2009, 2010) geta valið um allar vikurnar og er þeirra vinnutími mánudaga – fimmtudaga kl. 08:30-11:30 og 12:30-15:30 og unnið er á föstudögum frá kl. 08:30-11:30.
Það er matarhlé milli 11:30-12:30, auk þess eru tveir kaffitímar, 15.mínútur fyrir og eftir hádegi.
Setning vinnuskólans verður fimmtudaginn 6.júní klukkan 09:00 í félagsmiðstöðinni Óðal og er ætlast til þess að allir nemendur í vinnuskólanum mæti þangað. Þar verður farið yfir starfsemi sumarsins, veittar upplýsingar, fræðsla og hópefli. Á þessum degi eru allir saman úr öllum starfsstöðvum og mun vera rúta sem sækir nemendur frá Hvanneyri, Reykholti og Bifröst.
Mánudaginn 10.júní hefst vinnuskólinn formlega og mæta allir á sínar starfsstöðvar.
Yfir sumarið eru 4-5 dagar tileinkaðir samveru, skemmtun og forvarnarvinnu. Farið verður í ferð í lok sumars sem er skipulögð með ungmennunum sjálfum.
Vinnuskólinn starfar samkvæmt samþykktum Borgarbyggðar en ekki samkvæmt lögskipaðri námskrá og er því ekki skólaskylda í vinnuskólanum. Nemendum stendur til boða að vinna á 17.júní hátíðum í Borgarbyggð og mun vera sérstakur póstur sendur út í tilefni þess og óskað eftir skráningum.
Stefnt er að því að ungmenni fædd 2007-2010 geti óskað eftir því að vinna önnur störf utan almenna garðyrkjustarfa í eina til tvær vikur yfir tímabilið.
Starfsstöðvar vinnuskólans eru í Borgarnesi, á Hvanneyri, í Reykholti og á Bifröst. Á Hvanneyri sér LBHÍ um vinnuskólann og í Reykholti vinna ungmennin með umsjónarmanni Snorrastofu.
- Borgarnes:
Útihópur
Leikskólinn Klettaborg
Aldan hæfing
Íþróttavöllurinn
Knattspyrnudeild Skallagríms
Skapandi vinnuskólinn
Efnileg ungmenni sem stunda íþróttir, tómstundir og listir.
- Hvanneyri:
Útihópur
Leikskólinn Andabær
Skapandi vinnuskóli
Efnileg ungmenni sem stunda íþróttir, tómstundir og listir.
- Reykholt:
Útihópur
Leikskólinn Hnoðraból
Skapandi vinnuskólinn
Efnileg ungmenni sem stunda íþróttir, tómstundir og listir.
- Bifröst
Golfklúbburinn Glanni
Skapandi vinnuskóli
Efnileg ungmenni sem stunda íþróttir, tómstundir og listir.
Skapandi vinnuskólinn er í samstarfi með Listaskóla Borgarfjarðar og SSV en megin markmið verkefnisins er að ungmenni sem ráða sig til starfa hjá vinnuskólanum hafi tækifæri til að vinna í skapandi störfum. Þetta verkefni er í boði fyrir ungmenni fædd 2010-2007.
Drög að dagskrá fyrir sumarið 2024:
DJ hópur– Námskeið verður haldið 10.-21.júní. Forkröfur að það er tekið DJ námskeið sem haldið verður í Óðal núna í mai.
Kvikmyndagerð– unnið með fagfólki frá LHÍ
Námskeiðið verður haldið 24.-5.júlí.
Klifurhópur/ljósmyndun og útivist
Námskeiðið er haldið frá 10.-21. Júní
Sótt er um þessi námskeið á sama tíma og í vinnuskólann.
Öll ungmenni á aldrinum 13 til 16 ára, með lögheimili í Borgarbyggð, sem skara fram úr og hafa sýnt sérstaka hæfileika á sínu sviði geta sótt um styrk til að stunda sínar íþróttir, tómstundir og listir. Markmið með þessu er að koma til móts við þau ungmenni sem geta ekki með sama hætti og jafnaldrar þeirra unnið sumarvinnu hjá Borgarbyggð vegna mikils álags, skipulags eða annarra þátta. Börn sem sækja æfingar utan sveitarfélagsins hafa tækifæri til að sækja um styrkinn.
Sótt er um styrkinn á sama tíma og sótt er um í vinnuskóla Borgarbyggðar. Nánari upplýsingar sjáið þið hér
Forráðamenn skrá ungmenni í Vinnuskólann í gegnum Völu – sjá hér.
Innskráning fer fram með rafrænum skilríkjum. Ef rafræn skilríki eru ekki til staðar er hægt að hafa samband við vinnuskolinn@borgarbyggd.is. Mikilvægt að til sé bankareikningur í nafni ungmennis, án hans er ekki hægt að ljúka skráningu.
Ekki er búið að opna fyrir skráningu en það mun gerast í vikunni 6.-10.mai. Foreldrar fá upplýsingar þegar allt er klár.
Gott er að gefa upp netfang sem mest er notað bæði hjá forráðamanni og ungmenni upp á samskipti fyrir sumarið. Í skráningarferlinu er svo óskað eftir upplýsingum um sérþarfir ungmennis, heilsufar (einkum ef það getur haft áhrif á starfsgetu ungmennis) og loks er hægt að bæta við öðrum athugasemdum.
Hvert er tímakaupið?
Fæðingarár Tímakaup
2011 665 kr.
2010 798 kr.
2009 1.064 kr.
2008 1.330 kr.
2007 í vinnslu
Hvert er launatímabilið?
Launatímabil ungmenna eru eins og hjá öðru tímavinnufólki hjá Borgarbyggð, frá 16.hvers mánaðar til 15. þess næsta.
- júlí: Greiðsla fyrir dag/a til og með 15.júní.
- ágúst: Greiðsla fyrir 16.júní til 15.júlí.
- september: Greiðsla fyrir 16.júlí – 15.ágúst.
Hvar sé ég launaseðla?
Launaseðlar birtast á heimabanka viðkomandi undir rafrænum skjölum.
Fæ ég orlof?
Orlofsfé er 13,04 % og greiðist á alla tímavinnu. Orlof er greitt út með laununum.
Þurfum við að greiða skatta?
Á því ári sem ungmenni verða 16 ára byrja þau að greiða skatt en eins og aðrir launþegar eiga þau rétt á persónuafslætti sem er 64.926 kr. á mánuði árið 2024. Sú upphæð nægir til að mæta þeim skatti sem ungmennin myndu annars greiða af sínum launum í Vinnuskólanum.
Vinnuskóli Borgarbyggðar mælir með því að allir 16 ára nemendur og eldri nýti persónuafslátt sinn. Vakin er athygli á því að þeir sem vilja nýta persónuafsláttinn verða að senda tölvupóst á launafulltrui@borgarbyggd.is og gerð grein fyrir ákvörðuninni.
Hvað með veikindi og leyfi?
Nemendur vinna sér ekki inn veikindarétt. Veikindadagar eru því ekki greiddir. Hægt er að fá leyfi frá störfum á starfstímabilinu en forráðamenn þurfa að tilkynna frítöku með fyrirvara til yfirflokkstjóra.
Reglurnar gilda jafnt á vinnutíma sem og við önnur störf á vegum Vinnuskólans.
- Flokksstjóri er verkstjóri á vinnustað. Næsti yfirmaður hans er yfirflokksstjóri.
- Öllu starfsfólki ber að vera vinnusamt, stundvíst, heiðarlegt og kurteist
- Einelti og annað ofbeldi er ekki liðið í vinnuskólanum
- Veikindi og önnur forföll ber að tilkynna hið fyrsta í gegnum Völu vinnuskólakerfi https://innskraning.island.is/?id=vinnuskoli-umsokn.vala.is
- Pásur og kaffitími eru eftir samkomulagi flokkstjóra og nemenda
- Vinnuskólinn er tóbaks- og vímuefnalaus vinnustaður og bannað er að vera með orkudrykki.
- Starfsmönnum ber að ganga vel og þrifalega um á vinnustað og fara vel með þau áhöld sem notuð eru. Ef áhöld eru skemmd af ásettu ráði dregst það frá launum viðkomandi starfsmanns.
- Notkun farsíma er ekki leyfileg á vinnutíma, nema flokkstjóri gefi leyfi um annað.
- Öll ungmenni útvega sjálfir hlífðarfatnað og bera þau ábyrgð á eigin fötum og eigum.