Frístundastyrkur fyrir börn og ungmenni í Borgarbyggð
- Markmið og tilgangur
Borgarbyggð styrkir tómstundaiðkun barna og ungmenna á aldrinum 6-18 ára með framlagi að upphæð kr. 40.000 á ári, börn 0-5 ára eiga rétt á frístundastyrk sem nemur 35% af fullum styrk sem í þessu tilfelli er 14.000 krónur. Markmið framlagsins er að hvetja börn og ungmenni með lögheimili í Borgarbyggð til að taka þátt í skipulögðu íþrótta- lista og tómstundastarfi og að öll börn 0 -18 ára geti tekið þátt í uppbyggilegu tómstundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Borgarbyggð vill með þessu ýta undir aukna hreyfingu og virkni í félagsþátttöku 0-18 ára barna.
- Frístundastyrkur
Frístundastyrkur er 40.000 krónur á ári fyrir börn og ungmenni á aldrinum 6-18 ára og 14.000 krónur á ári fyrir börn á aldrinum 0-5 ára sem hafa lögheimili í Borgarbyggð. Styrkupphæðin ákvarðast við gerð fjárhagsáætlunar og gildir frá 1.janúar til og með 31.desember ár hvert.
Frístundastyrkurinn greiðist í nafni iðkanda til félagsins frá Borgarbyggð og gildir styrkurinn ekki sem greiðsla fyrir búnaði vegna keppni eða þjálfunar.
Foreldrar og forráðamenn geta skoðað stöðu og nýtingu frístundastyrks sinna barna inn á þjónustugátt Borgarbyggðar á heimasíðunni www.borgarbyggd.is.
- Skilgreining á þátttökurétti félaga og fyrirtækja
Til að taka við frístundastyrk verða félög að
- Vera með skilgreinda starfsemi sem fellur undir markmið reglna þessara
- Æfing/námskeið sé stundað undir leiðsögn viðurkenndra þjálfara, leiðbeinanda eða kennara.
- Hafa rekstur undir eigin kennitölu
- Reka íþrótta-, tómstunda- eða/og æskulýðsstarfsemi
Öll íþróttafélög sem tilheyra UMSB og öðrum sérsamböndum hafa heimild til að taka við frístundastyrk frá Borgarbyggð að því gefnu að viðkomandi félag hafi tengingu við Abler kerfið og óski eftir samstarfi við Borgarbyggð.
Ef nýir aðilar óska eftir að taka við frístundastyrk þurfa þeir að sækja um það til Borgarbyggðar í gegnum borgarbyggd@borgarbyggd.is með nánari upplýsingum um frístundastarf viðkomandi aðila og ósk um að tengjast við kerfi Borgarbyggðar innan Abler skráningarkerfisins.
Ef ekki er hægt að nota Abler kerfið til að ráðstafa styrknum rafrænt er hægt að koma með nótu/kvittun fyrir námskeiðskaupum á skrifstofu Borgarbyggðar mun styrkurinn vera millifærður á forsjáraðila.
- Framkvæmd frístundastyrks
Ekki er um beingreiðslur til forráðamanna að ræða, heldur hafa þeir rétt til að ráðstafa tilgreindri upphæð í nafni barns síns til niðurgreiðslu á þátttöku- og æfingagjöldum.
- Forráðamenn skrá iðkendur í Abler kerfið í gegnum viðkomandi félag.
- Í skráningarferlinu, þar sem er m.a. gengið frá greiðslu námskeiðs velja forráðamenn að ráðstafa styrk iðkandans hjá viðkomandi félagi/deild/fyrirtæki rafrænt.
- Ekki er hægt að ráðstafa hærri upphæð til félags en námskeiðið kostar.
- Þegar forráðamaður staðfestir þátttöku barns fær viðkomandi félag/deild/fyrirtæki og Borgarbyggð staðfestingu þar um.
- Borgarbyggð greiðir frístundastyrki til viðkomandi íþróttafélags/deildar/fyrirtækis í byrjun hvers mánaðar fyrir skráða styrki mánuðinn á undan.
- Ónýttir frístundastyrkir flytjast/geymast ekki milli ára.
- Undanþágur og vafaatriði
Íþrótta og tómstundafulltrúi Borgarbyggðar hefur umsjón með frístundastyrk til barna og ungmenna í Borgarbyggð og veitir nánari upplýsingar þar um. Íþrótta og tómstundafulltrúi getur borið mál varðandi frístundastyrk undir sviðsstjóra fjölskyldusviðs sem hefur heimild til að veita undanþágu frá þessum reglum. Sviðsstjóri fjölskyldusviðs sker úr um vafaatriði sem upp geta komið. Brot félaga á reglum og skilyrðum fyrir frístundastyrknum getur leitt til endurskoðunar á leyfi til að taka við frístundastyrk Borgarbyggðar. Komi upp mörg sambærileg undanþágumál skal fræðslunefnd vera upplýst um eðli þeirra mála og sé það skoðað hvort að endurskoða þurfi reglurnar.