Öryggis-/lokaúttekt

Kaflar 3.8 og 3.9 í byggingarreglugerð fjalla um öryggis- og lokaúttektir á mannvirkjum.

Byggingarreglugerð nr. 112/2012 (Uppfærð 25. nóvember 2021)

Vinsamlegast sendið beiðni um úttekt á netfangið bygg@borgarbyggd.is

Hvað er öryggisúttekt?

Þegar mannvirki er tekið í notkun skal gerð úttekt á öryggi þess og hollustuháttum. Óheimilt er að flytja inn í mannvirki eða taka það í notkun nema það uppfylli öryggis- og hollustukröfur og öryggisúttekt hafi farið fram. Unnt er að beita þvingunarúrræðum (t.d. stöðvun framkvæmda eða notkunar, lokun eða álagningu dagsekta) ef vanrækt er að láta öryggisúttekt fara fram. Í 3.8. kafla byggingarreglugerðar eru ítarleg ákvæði um hvaða gögnum þarf að skila vegna öryggisúttektar. 


Hvað er lokaúttekt?

Lokaúttekt er staðfesting með úttekt byggingarfulltrúa á að byggingu mannvirkis sé lokið og það reist í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Þegar mannvirki er fulllokið og innan þriggja ára frá því að það var tekið í notkun og öryggisúttekt gerð skal gera lokaúttekt á því. Úttektinni er ætlað að ganga úr skugga um að mannvirkið hafi verið reist í samræmi við samþykkta aðal- og séruppdrætti og uppfylli ákvæði mannvirkjalaga og þeirra reglugerða sem framkvæmdina varðar. Hafi mannvirkið ekki verið tekið í notkun fyrir lokaúttekt er hún jafnframt öryggisúttekt. Uppfylli mannvirkið fyrirliggjandi kröfur gefur byggingarfulltrúi út vottorð um lokaúttekt. Í 3.9. kafla byggingarreglugerðar eru ítarleg ákvæði um hvaða gögnum þarf að skila vegna lokaúttektar. 


Hverjir geta óskað eftir öryggis- eða lokaúttekt?

Byggingarstjóri fyrir hönd eiganda mannvirkis og eftir atvikum eigandi þess geta óskað eftir lokaúttekt. Áður en lokaúttekt er framkvæmd þarf að skila inn útfylltri yfirlýsingu um verklok frá byggingarstjóra ásamt yfirlýsingum um verklok frá meisturum sem viðkoma verki. Eyðublöð má finna hægra megin á síðunni. Vinsamlegast sendið beiðni um úttekt í tölvupósti á netfangið bygg@borgarbyggd.is


Framkvæmd úttektar

Byggingarfulltrúi í samráði við beiðenda ákveður úttektartíma. Viðstaddir úttektina auk byggingarfulltrúa skulu vera fulltrúar slökkviliðs og byggingarstjóri. Byggingarstjóri skal tilkynna iðnmeisturum og hönnuði mannvirkisins um lokaúttektina og gefa þeim kost á að vera viðstaddir. Byggingarstjóri skal jafnframt leggja fram frumrit eða afrit samþykktra uppdrátta sem nota skal við úttektina.


Vottorð um lokaúttekt

Fullnægi mannvirkið þeim kröfum sem gerðar eru lögum samkvæmt og byggt hefur verið í samræmi við samþykkta uppdrætti gefur byggingarfulltrúi út lokaúttektarvottorð sem hann afhendir byggingarstjóra. Jafnframt skráir byggingarfulltrúi byggingarstig 7 í fasteignaskrá Þjóðskrár. Niðurstöðu úttektar skráir byggingarfulltrúi í málakerfi sitt.