Rekstrarleyfi

Borgarbyggð hefur tekið upp innri verklagsreglur við veitingu umsagna um rekstrarleyfi skv. lögum nr. 85/2007 og jafnframt sett sér reglur um afgreiðslu rekstrarleyfa.

Leyfisveitandi rekstrarleyfa er sýslumaður sem leitar umsagnar sveitarfélagsins um eftirfarandi atriði:

  1. Að starfsemi sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsmála.
  2. Að lokaúttekt hafi farið fram á húsnæðinu.
  3. Að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um.
  4. Að starfsemi sé í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og laga um matvæli og, þegar við á, mat heilbrigðisnefndar á grenndaráhrifum starfseminnar, þ.m.t. hljóðvist.
  5. Að kröfum um brunavarnir sé fullnægt samkvæmt mati slökkviliðs.

Ferlið innan stjórnsýslunnar er með eftirfarandi hætti:

Sýslumaður sendir beiðni um umsögn til sviðsstjóra stjórnsýslu- og þjónustusviðs sem áframsendir beiðni um umsögn til eftirfarandi aðila:

  1. Byggingarfulltrúa Borgarbyggðar (bygg@borgarbyggd.is)  sem veitir umsögn um töluliði 1-3 hér að ofan. Byggingarfulltrúa ber að leita álits skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins á þeim hluta umsagnar sem varðar skipulagsskilmála í 1. og 3. tölul. 1.gr. 
  2. Heilbrigðisnefndar sveitarfélagsins (heilbrigdiseftirlit@hev.is) sem veitir umsögn um 4. tölul. hér að ofan. Þarf heilbrigðisnefnd sveitarfélagsins meðal annars að staðfesta að þeir þættir sem tilgreindir eru í 3. mgr. 27. gr. rgl. 1277/2016 séu til staðar
  3. Eldvarnareftirlitsmanns Borgarbyggðar (heidarorn@borgarbyggd.is) sem veitir umsögn um 5. tölul. hér að ofan.

Umsagnir ofangreindra aðila ber að senda til sviðsstjóra stjórnsýslu- og þjónustusviðs sem sendir heildarumsögn til sýslumannsins á Vesturlandi í umboði sveitarstjóra.

Sviðsstjóri stjórnsýslu- og þjónustusviðs hefur heimild til að meta hvort ástæða sé til þess að leggja umsögn fyrir byggðarráð eða sveitarstjórn til afgreiðslu að fengnum umsögnum.

Nánari upplýsingar um rökstuðning umsagnaraðila, andmælarétt umsækjanda og úrbætur umsækjanda má sjá hér.

Í reglum um rekstrarleyfi er jafnframt að finna nánari upplýsingar um hvaða viðmið umsagnaraðilar hafa við afgreiðslu umsókna, sérstaklega þau er varðar skipulagsskilmála sveitarfélagsins. Eru reglur þessar settar með það að markmiði að fyrirsjáanleiki sé til staðar við afgreiðslu umsagna um rekstrarleyfi frá sveitarfélaginu.

Sveitarstjórn samþykkti reglurnar á fundi sínum 11. mars 2020.