Byggðarmerkið „Fléttan” bar sigur úr bítum í samkeppni sem haldin var um nýtt byggðarmerki Borgarbyggðar árið 2006. Merkið er þríeitt með tilvísun í menningu, menntun og sagnaarf héraðsins. Í merkinu má líka sjá keiluform Baulu, Skessuhorns og Hafnarfjalls og boga Eiríksjökuls, jafnt sem gömlu Hvítárbrúarinnar.
„Fléttan” er tákn um samheldni og samvinnu íbúanna og um það hvernig framvinda mála veltur á þátttöku einstaklinganna. Í merkinu býr mikill kraftur og hreyfing en samt er það í fullkomnu jafnvægi. Samofnir þættir þess sýna styrk sveitarfélagsins og þá festu sem hverju samfélagi er nauðsynleg.
Höfundur merkisins er Örn Smári Gíslason.