Prófanir hafnar á skólphreinsistöð

október 10, 2017
Featured image for “Prófanir hafnar á skólphreinsistöð”

Þriðjudaginn 9. október hófst gangsetning á nýrri skólphreinsistöð Veitna í Borgarnesi. Stöðin er bylting í fráveitumálum í bænum en hún mun taka við öllu skólpi, sem hingað til hefur runnið óhreinsað í sjó í gegnum nokkrar útrásir í bænum, hreinsa það og dæla um 600 m. út í fjörðinn. Áður en hægt er að setja hreinsistöðina í gang þarf að ganga úr skugga um að yfirfall hennar virki sem skildi. Því mun óhreinsað skólp fara í sjó við hreinsistöðina í Brákarey í stuttan tíma. Sjö nýir dælubrunnar verða ræstir einn af öðrum og svo hreinsistöðin þegar skólp tekur að streyma inn í hana. Þegar dælubrunnar eru komnir í gang hættir skólp að streyma út um gömlu útrásirnar. Þær halda áfram að þjóna okkur sem yfirföll sem geta orðið virk þegar rignir mjög mikið eða ef dælustöð bilar eða sinna þarf viðhaldi í henni. Gert er ráð fyrir að prófanir taki tvær viku og að þeim loknum verði stöðin komin í fullan rekstur til framtíðar. Taki þær lengri tíma verður íbúum gert viðvart. Spurt og svarað um fráveitu: https://www.veitur.is/spurningar-og-rad/fraveita Reynsla Veitna af skólphreinsistöðvum sem þegar eru í rekstri sýnir að töluvert magn af rusli er hent í klósett eða skolað niður vaska. Mikil vinna og kostnaður felst í því að hreinsa dælur og farga ruslinu. Með því að minnka magn óæskilegra hluta/efna sem við sendum í fráveituna getum við dregið úr þeim tíma sem fer í viðhald og lækkað kostnað. Einungis má sturta niður líkamlegum úrgangi og salernispappír. Ekki skal skola olíu og fitu niður í vaska heldur setja í ruslið.   Hollráð um fráveitu: https://www.veitur.is/hollrad-um-fraveitu


Share: