Um þessar mundir eru ungar að klekjast úr eggjum hinna ýmsu fuglategunda og er því minnt á ábyrgð kattaeigenda og þess vænst að þeir taki þeim tilmælum sem birtast í samþykkt um hunda- og kattahald í Borgarbyggð og í stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Friðlandið í Andakíl.
Eigendum og forráðamönnum katta ber að taka tillit til fuglalífs á varptíma og eftir atvikum takmarka útiveru katta, meðal annars að næturlagi. Í samþykkt sveitarfélagsins og í Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Friðlandið í Andakíl, sem er friðlýst sem búsvæði fugla, er bent á að lausaganga katta er ekki æskileg og eru kattaeigendur hvattir til að halda köttum sínum innan dyra frá 20. apríl til. 20. júlí.
Allir hundar og kettir í þéttbýli skulu skráðir hjá sveitarfélaginu og samkvæmt lögum um velferð dýra nr. 55/2013 er skylt að einstaklingsmerkja dýrin og skrá í miðlægan gagnagrunn, www.dyraaudkenni.is
Ómerkt dýr teljast hálfvillt dýr í skilningi laganna og telst sveitarfélag umráðamaður þess, að tveimur sólarhringum liðnum, sé það handsamað. Því eru kattaeigendur hvattir til einstaklingsmerkja dýr sín og sækja um leyfi til kattahalds á Þjónustugátt á heimasíðu Borgarbyggðar.