Í bókun skipulags- og byggingarnefndar Borgarbyggðar 5. október sl. kom fram að sveitarfélaginu væri skylt að fara eftir ábendingum Skipulagsstofnunar með vísan í eftirfarandi greinar í skipulagslögum.
5. mgr. 7. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 Skipulagsfulltrúar og aðrir þeir sem sinna skipulagsgerð.
Skipulagsfulltrúi skal uppfylla annað eftirfarandi hæfisskilyrða:
- Vera skipulagsfræðingur sem hlotið hefur heimild hlutaðeigandi ráðherra til starfsheitisins samkvæmt lögum um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, nr. 8/1996.
- Vera arkitekt, byggingarfræðingur, landslagsarkitekt, tæknifræðingur eða verkfræðingur sem hlotið hefur heimild til þeirra starfsheita samkvæmt lögum um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, nr. 8/1996, og hafa sérhæft sig á sviði skipulagsmála í námi eða með starfsreynslu. Með sérhæfingu á sviði skipulagsmála er átt við að viðkomandi hafi lagt stund á nám á sviði svæðis-, aðal- eða deiliskipulags og/eða unnið að svæðis-, aðal- eða deiliskipulagsgerð í a.m.k. tvö ár.
9. mgr. 45. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 Reglugerðir og leiðbeiningar.
Í skipulagsreglugerð skulu vera ákvæði um starfshætti skipulagsnefnda, svæðisskipulagsnefnda og skipulagsfulltrúa og annarra þeirra sem falin er gerð skipulagsáætlana. Í reglugerðinni skal kveðið á um útgáfu og skráningar á lista Skipulagsstofnunar yfir starfandi skipulagsfulltrúa og þá sem uppfylla skilyrði 5. mgr. 7. gr. til gerðar skipulagsáætlana.
Bókun nefndarinnar á fundi nr. 28.
Skipulags- og byggingarnefnd telur sveitarfélaginu skylt að fara að ábendingu Skipulagsstofnunar. Mun sveitarfélagið hér eftir fara fram á að skipulagshönnuðir séu á lista Skipulagsstofnunar yfir þá sem uppfylla framangreind hæfisskilyrði frá og með 1. nóvember 2021 þegar lagðir eru fram nýir uppdrættir og greinargerðir til sveitarfélagsins. Eðlilegt er að þau mál sem þegar eru í ferli hjá sveitarfélaginu, eða aðrir samningar liggja fyrir um, fái undanþágu frá þessari reglu.