Laust starf garðyrkjufræðings

febrúar 25, 2022
Featured image for “Laust starf garðyrkjufræðings”

Borgarbyggð leitar að garðyrkjufræðingi til starfa í áhaldahúsi. Leitað er að metnaðarfullum einstaklingi til að hafa yfirumsjón með öllum opnum svæðum og gróðri á lóðum við stofnanir sveitarfélagsins.

Borgarbyggð er fallegt, friðsælt og fjölskylduvænt sveitarfélag á Vesturlandi, í nálægð við allt sem skiptir máli.

Við leitum eftir öflugum og drífandi einstaklingum sem sýna metnað og frumkvæði í starfi. Borgarbyggð hefur einsett sér að leggja aukna áherslu á notendamiðaða þjónustuhönnun, tækniframþróun og þjónustu við íbúa og viðskiptavini.

Í þeirri vegferð sem er framundan ætlum við að efla þjónustu sveitarfélagsins og vera tilbúin að mæta áskorunum framtíðarinnar. Áhersla verður lögð á þverfaglegt samstarf í verkefnamiðuðu umhverfi og frekari þróun innra starfs sem leiði í senn til framúrskarandi þjónustu og öflugs vinnuumhverfis.

Erum við að leita að þér?

Helstu verkefni og ábyrgð:

Garðyrkjufræðingur er starfsmaður í áhaldahúsi. Hann hefur yfirumsjón með opnum svæðum, lóðum og lendum í landi sveitarfélagins í samráði við yfirmann. Hann sér um viðhald þeirra jafnt sumar sem vetur, skipuleggur umhirðu, tegundasamsetningu og gróðursetningu. Starfsmaður hefur umsjón með umhirðu á lóðum stofnana sveitarfélagsins. Hann sér um viðhald gróðurs, s.s. trjáklippingar, trjáfellingar og gróðursetningar. Garðyrkjufræðingur gerir umhirðuáætlanir og sinnir verkstjórn árstíðabundið þegar Vinnuskóli Borgarbyggðar er starfandi. Hann sinnir öðrum störfum sem til falla í áhaldahúsi.

Menntun og hæfniskröfur:

  • Sveinspróf í garðyrkju eða önnur menntun sem nýtist í starfi
  • Vinnuvélaréttindi eru kostur
  • Reynsla af sambærilegum störfum er æskileg
  • Jákvæðni og frumkvæði
  • Sjálfstæði og skipulögð vinnubrögð
  • Hæfni í mannlegum samskiptum
  • Góð íslenskukunnátta

Frekari upplýsingar um störfin:

Áhaldahús Borgarbyggðar sinnir fjölbreyttum verkefnum í sveitarfélaginu s.s. umhirðu á opnum svæðum, leiksvæðum og á lóðum stofnana sveitarfélagsins. Þá sinnir áhaldahúsið viðhaldi gangstétta og gatna, viðhaldi vatnsveitna í dreifbýli, snjómokstri og hálkueyðingu, ásamt ýmsum aðkallandi verkefnum sem upp kunna að koma í sveitarfélaginu. Þá gegnir áhaldahús hlutverki gæludýraeftirlits.

Áhugasamir einstaklingar af öllum kynjum eru hvattir til að sækja um. Launakjör eru samkvæmt gildandi samningum Sambands íslenskra sveitarfélaga við viðkomandi stéttarfélag.

Umsókn skal fylgja náms- og starfsferilskrá ásamt afriti af prófskírteinum og starfsleyfi ef við á. Umsókn fylgi einnig kynningarbréf.

Umsóknir skulu berast í gegnum Alfreð.

Öllum umsóknum verður svarað.

Vinnutími: Dagvinna

Starfshlutfall: 100%

Starfssvið: Stjórnsýslu-og þjónustusvið

Umsóknarfrestur hefur verið framlengdur og er til og með: 1. mars 2022

Nánari upplýsingar veitir Hrafnhildur Tryggvadóttir, deildarstjóri umhverfis- og framkvæmdamála, netfang: hrafnhildur@borgarbyggd.is, símanúmer: 433-7100

 


Share: