Ístak átti lægsta tilboðið í alútboði fyrir fjölnota íþróttahús

nóvember 28, 2024
Featured image for “Ístak átti lægsta tilboðið í alútboði fyrir fjölnota íþróttahús”

Ístak hf. átti lægsta tilboðið í alútboði fyrir fjölnota íþróttahús, knatthús í Borgarnesi og hljóðaði tilboðið upp á 1.754 m.kr.. Tilboðið er 95% af kostnaðaráætlun verksins en hún hljóðaði upp á 1.840 m.kr.

Tilboð voru opnuð laust fyrir hádegi í dag, fimmtudaginn 28. nóvember. Í verkið buðu ásamt Ístaki,  Sjammi ehf. og E. Sigurðsson ehf. Áður hafði farið fram forval vegna alútboðsins þar sem fimm þátttakendur voru valdir til þátttöku í sjálfu alútboðinu og færir Borgarbyggð þeim öllum kærar þakkir fyrir.

Í alútboðinu felst m.a. fullnaðarhönnun á húsinu, jarðvinna, uppsteypa og reising burðarvirkis, frágangur utanhúss og innanhúss, frágangur á gervigrasi, hlaupabraut- og göngubraut og frágangur lóðar og skal verktaki skila húsinu fullbúnu að utan sem innan.

EFLA er ráðgjafi Borgarbyggðar í verkefninu og nú tekur við yfirferð á tilboðum og tilboðsgögnum áður en ákvörðun verður tekin um val á tilboðum.

Áætlað er að reisa húsið á íþróttasvæði Skallagríms við Þorsteinsgötu. Það mun hýsa hálfan knattspyrnuvöll, æfingaaðstöðu fyrir frjálsar íþróttir og fleira. Frumhönnun gerir ráð fyrir að stærð íþróttasalarins verði 3.800 fermetrar og að húsið verði loftræst og upphitað.


Share: