Í samræmi við 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér með auglýst vinnslutillaga að nýju deiliskipulagi í Borgarbyggð.
Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti þann 8. maí 2024 að auglýsa vinnslutillögu að nýju deiliskipulagi íþróttasvæðis í Borgarnesi.
Unnið er að breytingu aðalskipulags á svæðinu sem vinnslutillagan tekur til. Vinnslutillagan tekur til 8,2 ha íþróttasvæðis í Borgarnesi en þar er að finna æfingarvöll, knattspyrnu- og frjálsíþróttavöll, sundlaugarsvæði, íþróttahús og aðstöðu fyrir Ungmennasamband Borgarfjarðar.
Svæðið afmarkast til austurs af íbúðarbyggð (Í4 og Í3), til suðausturs af opnu svæði (O2, Skallagrímsgarður), til suðurs af lóð grunnskóla Borgarness (Þ3) og íbúðarbyggð (Í1). Til suðvesturs afmarkast svæðið af opnu svæði (O2) og hverfisvernd í þéttbýli (H1) og að lokum til vesturs og norður af sjó.
Á deiliskipulagssvæðinu eru þrjár lóðir, lóð íþróttahússins og sundlaugarinnar, lóð undir fyrirhugað fjölnota íþróttahús þar sem nú er sparkvöllur, og lóð ungmennasambands Borgarfjarðar sem tilheyrði áður deiliskipulagi skólasvæðisins. Deiliskipulagi nær til austurs yfir lóðina Þorsteinsgata 5.
Gerð er breyting á deiliskipulaginu Skólasvæði, Þ3, grunnskólinn í Borgarnesi frá árinu 2017 samhliða þar sem skipulagssvæðið er minnkað sem nemur lóð Skallagrímsgötu 7a.
Ofangreind skipulagsáætlun er auglýst í skipulagsgátt Skipulagsstofnunar (www.skipulagsgatt.is) frá 21. maí til og með 4. júní 2024 og er hverjum þeim aðila sem telur sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að koma með ábendingu við vinnslutillöguna á kynningartíma. Ábendingum skal skilað í skipulagsgáttina eða senda skriflega til þjónustuvers Borgarbyggðar, Digranesgötu 2, 310 Borganesi, b.t. skipulagsfulltrúa. Ef óskað er nánari kynningu á vinnslutillögunni þarf að panta tíma hjá skipulagsfulltrúa.
Vakin er athygli á að ábendingar teljast til opinberra gagna í allri skipulagsmeðferð og geta meðal annars nöfn íbúa birst í fundargerðum skipulags- og byggingarnefndar.
Skipulagsfulltrúi Borgarbyggðar
Borgarbyggð, 21. maí, 2024.