Undanfarið hefur verið unnið að snyrtingu trjáa og runna á opnum svæðum og verið er að snyrta aspir við Hringveg þessa dagana. Búið er að kurla hreint timbur og tré í Bjarnhólum og hefur kurli þegar verið dreift í beð við Ráðhús og kurlið verður áfram nýtt í önnur beð og stíga á vegum sveitarfélagsins. Þá stendur yfir götusópun í Borgarnesi.
Hreinsunarátak í þéttbýli tókst vel og fjölmargir sem nýttu tækifærið og komu úrgangi sínum í gámana. Starfsfólk í stofnunum sveitarfélagsins hefur hreinsað til í kringum starfsstöðvar sínar, tínt rusl og fegrað umhverfi sitt eins og undanfarin ár. Íslenska gámafélagið færði íbúum moltugám, og geta íbúar nálgast moltu í haug neðan við Íþróttamiðstöðina í Borgarnesi.
Einstaklingar og hópar hafa einnig „plokkað“ nokkuð víða; búið er að hreinsa miðsvæðið í Borgarnesi, meðfram helstu götum og á holtum þar sem gjarnan safnast fokrusl. Þá hafa aðilar í Brákarey unnið að tiltekt og hreinsun undanfarna daga. Það er gleðilegt að sjá hvað íbúar láta sig umhverfið miklu skipta og gefa sér tíma til að sinna því.
En alltaf er hægt að gera betur. Ásýnd samfélagsins skiptir alla máli og nú eru fyrirtæki sérstaklega hvött til að huga að tiltekt á lóðum sínum eftir veturinn og fjarlægja það sem hefur safnast upp.
Á næstu vikum mun Borgarbyggð í samstarfi við Heilbrigðiseftirlit Vesturlands líma aðvörunarmiða á þá hluti sem skylt er að fjarlægja. Viðkomandi eigendum verður veittur nokkurra daga frestur og að honum loknum munu hlutir verða fjarlægðir á kostnað eigenda.
Minnt er á að Gámastöðin við Sólbakka er opin alla daga, sunnudaga til föstudags milli kl. 14 og 18 og laugardagsmorgna milli kl. 10 og 14.