Vorhátíð Samkórs Mýramanna var haldin í Lyngbrekku síðastliðinn föstudag. Vel á annað hundrað manns sóttu hátíðina og nutu fram í rauða nóttina. Auk söngs Samkórsins, undir stjórn Zsuzsönnu Budai var að venju gestakór, Kirkjukór Hrunaprestakalls sem kom fram undir stjórn Edit Molár. Samkór Mýramanna var stofnaður árið 1981 og átti því 25 ára afmæli í fyrra. Æfingasetur kórsins er í Félagsheimilinu Lyngbrekku og í tilefni afmælisins færði kórinn húsinu kaffivél og hitakönnur að gjöf á vorhátíðinni í ár.
Mikið stendur svo til í starfi kórsins í sumar. Laugardaginn 9. júní mun hann leggja upp í ferðalag til Ítalíu, þar sem dvalið verður í Veróna í 4 daga, síðan 2 daga í Innsbruck í Austurríki og svo aftur síðustu nóttina í Veróna. Sungið verður m.a. í Riva við Gardavatnið á sunnudeginum 10. júní. Síðustu kóræfingarnar fyrir Ítalíuferð kórsins verða opnar æfingar í Borgarneskirkju, þar sem æft verður frá klukkan 20.30 til 22.30, þetta verður auglýst sérstaklega þegar nær dregur.