Vinna hafin við rammaskipulag í Brákarey

ágúst 24, 2022
Featured image for “Vinna hafin við rammaskipulag í Brákarey”

Vinna er nú hafi við gerð rammaskipulags í Brákarey við Borgarnes. Samningur þar að lútandi var undirritaður í gær milli Borgarbyggðar og Festis fasteignaþróunarfélags, sem leiða mun skipulagsvinnuna ásamt m.a. JVST arkítektum.

Brákarey er um fimm hektarar að stærð og er tengd Borgarnesi með brú. Eyjan hefur verið samofin atvinnusögu Borgarness og Borgarfjarðarhéraðs alla tíð og Brákarsund milli Brákareyjar og Borgarness var vettvangur eins þekktasta atburðar Egils sögu. Á árum áður voru í Brákarey sumir stærstu vinnustaðir Borgarness; sláturhús, verkstæði, verslun og iðnaður.

Óhætt er að segja að Brákarey sé eitt áhugaverðasta fasteignaþróunarverkefni landsins. Þar fer saman mikil saga, náttúra og útsýni. Þá er eyjan hluti af gamla bæ Borgarness þar sem síðustu ár veruleg uppbygging hefur átt sér stað og veitingastarfsemi og menningarlíf eflst. Það er tilhlökkunarefni að sjá nú fram á að Brákarey endurheimti fyrri sess sem kjarni mannlífs, atvinnulífs og menningar í Borgarbyggð en í samkomulaginu er miðað við að í Brákarey verði blönduð byggð „og starfsemi sem muni laða að sér mannlíf og auka lífsgæði íbúa.“
Vinna fer nú af stað af krafti en miðað við þá tímalínu sem lagt er upp með má reikna með að nýtt skipulag verði kynnt upp úr áramótum, gangi allt að óskum.

F.v. Stefán Broddi Guðjónsson, sveitarstjóri Borgarbyggðar, og Róbert Aron Róbertsson, framkvæmdastjóri Festis, við undirritun samkomulagsins í Brákarey í gær.


Share: