Vígsluathöfn á Hvanneyri – Römpum upp Borgarbyggð

júní 24, 2022
Featured image for “Vígsluathöfn á Hvanneyri – Römpum upp Borgarbyggð”

Í gær, fimmtudaginn 23. júní fór fram vígsluathöfn á Hvanneyri við Hvanneyri Pub, á rampi nr. 40 í verkefninu Römpum upp Ísland. Sigrún Ólafsdóttir formaður umhverfis- og landbúnaðarnefndar stýrði athöfninni, Guðveig Eyglóardóttir forseti sveitarstjórnar fór með ræðu í tilefni dagsins og Símon Bogi Þórarinsson tók nokkur lög á trompet. Það var síðan Þórunn Edda Bjarnadóttir sem vígði rampinn. Landbúnaðarháskóli Íslands bauð upp á veitingar.

Forsvarmenn verkefnisins Römpum upp Ísland sendi erindi á öll sveitarfélög og kynnti markmið og tilgang verkefnisins, en áætlað er að setja upp 1000 rampa hringinn í kringum landið á næstu fjórum árum. Ramparnir eru settir upp hjá einkaaðilum á þéttbýlisstöðum og eftir atvikum á fjölsóttum ferðamannastöðum. Áhersla er lögð á veitingastaði, kaffihús og verslanir til að auka möguleika hreyfihamlaðra að njóta sömu þjónustu og aðrir. Stjórn Römpum upp Ísland velur hvaða staðir koma til greina eftir ábendingar, m.a. frá sveitarfélögum.

Sveitarfélagið hafði frumkvæði að því að hafa samband við Römpum upp Ísland og lýsti yfir vilja sínum til að aðstoða við verkefnið. Það var starfsfólk Borgarbyggðar sem fór með hönnuði Römpum upp Ísland og skoðaði veitingastaði og verslanir í Borgarbyggð og fundust staðir þar sem úrbóta var þörf á og samræmdist áherslum verkefnisins en settir verða upp fimm rampar í sveitarfélaginu að þessu sinni.


Share: