Móglí 2017 – Hugleiðingar í lokin
Draumaverkefnið mitt varð að veruleika. Allt frá því ég kynntist söngleiknum Móglí sem Borgarleikhúsið setti upp árið 2000 hefur mig dreymt um að setja upp þennan söngleik. Tónlistin eftir Óskar Einarsson heillaði mig og einnig efnistök leikritsins. Þegar ég fór að huga að því hvaða verkefni við ættum að taka fyrir á fimmtíu ára afmæli Tónlistarskóla Borgarfjarðar var kominn tími til að láta söngleikinn Móglí verða að veruleika. Ég sá fyrir mér að þarna gætum við sameinað krafta barna og fullorðinna.
Það gerðum við, fengum fólk úr héraðinu á öllum aldri til að taka þátt. Leikstjórinn okkar Halldóra Rósa Björnsdóttir var stórkostleg og hefur vinnan með henni verið mjög ánægjuleg. Allt ferlið við Móglí, frá fyrsta kynningarfundi í apríl og til lokasýningar í desember hefur verið ótrúlega skemmtilegt og gefandi.
Við byrjuðum á að kynna söngleikinn síðastliðið vor og mættu yfir sjötíu manns á kynningarfundinn. Byrjað var að æfa sönglögin í vor og í haust var farið á fullt við leik- og tónlistaræfingar. Fyrst æfðum við í skólanum og þegar nálgaðist frumsýningu fórum við í Hjálmaklett og þar var æft frá byrjun nóvember. Frumsýningin var 24. nóvember, sýningarnar urðu alls 10, alltaf fyrir fullu húsi og var lokasýningin 9. desember.
Við vorum 43 sem tókum þátt í söngleiknum, 28 börn og 15 fullorðnir í leik, söng og hljóðfæraleik. Að auki var fjöldi manns sem var til aðstoðar, m.a við leikmynd, lýsingu, vinnu baksviðs ofl. Það var mjög gaman og dýrmætt að kynnast og starfa með öllu því frábæra fólki sem tók þátt í sýningunni. Aðstaðan í salnum var mjög fín, gott pláss og sviðið fínt. Það var stórkostlegt hve leikmyndin var vel heppnuð og salurinn vel nýttur. Þátttakendur höfðu aðstöðu í kjallaranum og hefði þar mátt vera meira pláss til að athafna sig, en allir gerður gott úr aðstæðum. Foreldrar bjuggu til „kósý“ aðstöðu fyrir krakkana og öllum leið alla jafna vel í kjallaranum. Fengum aðstöðu í eldhúsinu til að hita kaffi og það var þægilegt.
Þegar ég hugsa um þetta verkefni okkar er ég full þakklætis, stolt og hamingjusöm yfir því að Móglí-sýningin skyldi takast svona vel, við fá svo góða aðsókn og umfjöllun um verkefnið. Eftir standa góðar minningar um frábært samstarf barna og fullorðinna, tónlistarfólks og leikara, foreldra og velunnara sem komu að sýningunni.
Þetta frábæra afmælisverkefni varð eins og ég hafði hugsað mér það og eftir stöndum við stolt á fimmtíu ára afmæli Tónlistarskóla Borgarfjarðar.
Þetta var stórkostleg upplifun sem mun aldrei gleymast.
Takk fyrir að fá tækifæri til að láta drauminn rætast!
Borgarnesi, 29. desember 2017
Theodóra Þorsteinsdóttir
skólastjóri