Við erum framtíðin!

nóvember 14, 2008
Forvarnardagar í Borgarbyggð, sem enduðu með árlegu Æskulýðsballi í Borgarnesi fimmtudagskvöldið 6. nóvember, tókust mjög vel.Unglingarnir sömdu slagorð við hæfi „Við erum framtíðin – segjum nei við fíkniefnum!“. Fíkniefni hafa verið á síðustu árum ein mesta ógn sem unglingar á framhaldsskólastigi, hafa staðið frammi fyrir. Sem betur fer er ekki vitað til þess að um fíkniefnaneyslu sé að ræða hjá unglingum í 8.-10. bekk hér í sveitarfélaginu og má það eflaust þakka öflugu forvarna- og foreldrastarfi í efstu bekkjum grunnskólanna. Með slagorðinu „Við erum framtíðin“ eru unglingar að höfða til þess að það, unga fólkið sem erfa skal landið, má ekki gleymast í umræðunni um samdrátt og erfiðleika sem hugsanlega eru framundan og hve félagsstarf þeirra og yfirhöfuð skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf er mikilvægur grunnþáttur í daglegu lífi unglinga.
Grunnskólinn í Borgarnesi braut upp hefðbundið skólastarf í tvo daga og voru fluttir fyrirlestrar og erindi bæði í skólanum og í félagsmiðstöðinni Óðali. Meðal fyrirlesara voru Beggi og Pacas sem fluttu frábæran fyrirlestur “Listin að lifa” fyrir unglinga um fordóma, væntumþykju, virðingu, mikilvægi þess að vera jákvæð og virða ólíkar skoðanir og útlit hvers annars.
Alda Baldursdóttir og Laufey Gísladóttir, lögreglumenn, komu í heimsókn til 7. bekkjanna og var m.a. fjallað um mikilvægi þess að geta sér góðs orðspors, um afleiðingar skemmdarverka, þjófnaða, eineltis, ofbeldis og hve mikilvægt það er að taka afstöðu gegn vímuefnaneyslu.
Íris skólahjúkrunarfræðingur fjallaði um heilbrigðan lífstíl með 8. bekk og íþróttakennarar höfðu íþróttatíma eldri deildar í formi fyrirlestra og umræðna um hollustu og heilbrigðan lífstíl. 9. og 10. bekkur tóku þátt í ,,Forvarnardeginum,“ verkefni sem sett var á laggirnar fyrir þremur árum fyrir tilstuðlan forseta Íslands. Sjá nánar á forvarnardagurinn.is .
Lögreglan í Borgarfirði og Dölum flutti foreldrum fínan fyrirlestur og kynningu í Óðali um hættur í fíkniefnaheiminum og mikilvægi þess að standa saman og láta vita af óæskilegri hegðun eða neyslu til að hægt sé að grípa inn í áður en í óefni er komið.
Félagsstarfið í Óðali var kynnt og rætt um hve mikilvægt væri að foreldrar barna töluðu saman og tækju þátt í starfi barna sinna. Það voru um 450 glæsilegir og spariklæddir unglingar úr 12 skólum af Vestur- og Norðurlandi sem mættu á Æskulýðsballið um kvöldið sem í ár var haldið í sal Menntaskóla Borgarfjarðar og tókst með eindæmum vel og var unglingum og öllum sem að komu til sóma.
Helgina fyrir og eftir forvarnadaginn tóku 9. bekkir í Borgarbyggð þátt í verkefninu „Hugsað um barn“, (sjá www.obradgjof.is )
Það voru foreldrafulltrúar bekkjanna og Hanna Sigríður, starfsmaður félagsmiðstöðvarinnar Óðals, sem báru hitann og þungann af undirbúningi þess en Sjóvá, VÍS, BM Vallá og Borgarbyggð styrktu verkefnið. Sjá myndasíðu Óðals www.odal.borgarbyggd.is
 
 
Grein: i.jos. k.gis.
 
Myndirnar tók Hanna Kristín Kjartansdóttir við ýmis tækifæri á forvarnardögum.
 
 

Share: