Borgarbyggð hefur gengið frá samningi við verktakafyrirtækið Sólfell ehf um að reisa 660 fm byggingu við Grunnskólann í Borgarnesi. Verksamningurinn er gerður á grundvelli útboðs og nemur samningsfjárhæð 97,2 milljónum króna. Verktaki semur við undirverktaka um hluta af framkvæmdinni og er stærsti undirverktaki Loftorka í Borgarnesi sem tekur að sér að steypa einingar í húsið og reisa þær.
Byggingartíminn er um sjö mánuðir og er áætlað að hið nýja skólahúsnæði verði tekið í notkun í upphafi skólaárs næsta haust. Með þessari stækkun á húsnæði Grunnskólans í Borgarnesi bætast við sex kennslustofur og verður skólinn þar með einsetinn. Slík breyting mun hafa ýmis áhrif á skólastarfið og verður skipaður starfshópur sem hefur það hlutverk að halda utan um ferli breytinga á skipulagi og starfsháttum skólans og þeirra sem honum tengjast.
Búast má við einhverjum óþægindum fyrir skólastarfið fram til vors vegna byggingarframkvæmdanna og eru kennarar, nemendur, foreldrar og aðrir sem tengjast skólanum beðnir um að sýna því skilning. Gert er ráð fyrir að færa til gæslu skólabarna og verður byggingarsvæðið girt af eins og kostur er.
Borgarbyggð hefur gengið frá fjármögnun framkvæmdarinnar með fjölmynta lánasamningi við Íslandsbanka-FBA.