Við áramót

desember 31, 2010
Við áramót er hollt og gott að líta yfir farinn veg og rifja upp og meta hverju árið sem senn er á enda hefur skilað og spyrja „höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg“. Í þessum stutta pistli ætla ég að tæpa á því helsta sem unnið hefur verið að á vettvangi sveitarfélagsins á árinu.
Undanfarin tvö ár hafa borið þess merki að fjárhagsstaða Borgarbyggðar hefur verið erfið. Ljóst var strax haustið 2008 að draga þyrfti verulega saman seglin í rekstri til þess að endar næðu saman, en Borgarbyggð hefur verið eitt þeirra sveitarfélaga þar sem tekjusamdráttur hefur verið hvað mestur. Sveitarstjórn greip því strax til aðgerða og hefur verið unnið að hagræðingu í rekstri allar götur síðan. Vissulega hafa sumar þessar aðgerðir verið sársaukafullar fyrir starfsfólk og á sumum sviðum hefur þjónustu við íbúa verið skert, en með samstilltu átaki allra erum við vonandi að snúa vörn í sókn. Endurskoðuð fjárhagsáætlun fyrir árið 2010 sýnir að rekstarniðurstaðan á árinu verður jákvæð um rúmar 40 milljónir og fjárhagsáætlun fyrir árið 2011 gerir ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um tæpar 20 milljónir. Eftir sem áður þarf eftirlit með rekstri að vera afar virkt og nýta þarf vel það fjármagn sem sveitarfélagið hefur.
 
 
Síðla árs tókust samningar á milli Íslandsbanka og Borgarbyggðar um kaup sveitarfélagsins á mennta- og menningarhúsinu í Borgarnesi, en bankinn hafði eignast húsið s.l. sumar. Borgarbyggð greiddi 910 milljónir fyrir húsið og má því segja að hver fermeter í húsinu hafi kostað um 300 þúsund sem er að mínu mati ásættanlegt verð og í samræmi við kostnaðaráætlanir sem á sínum tíma voru gerðar. Eftir kaup sveitarfélagsins á húsinu var slegið upp hátíð þar sem skólar og menningarstofnanir kynntu starfsemi sína. Sú hátíð heppnaðist afar vel og endurspeglaði þá fjölþættu starfsemi sem þar fer fram og þá möguleika sem húsið býður upp á. Reikna má með að daglega séu vel á fjórða hundrað nemendur og starfsfólk við nám og störf í menntaskólanum, dansskóla Evu Karenar, ungmennamennahúsinu, á skrifstofu RÚV og í samkomusal hússins. Öll þess starfsemi hefur leitt til þess að húsið iðar af lífi frá morgni til kvölds. Loks er rétt að nefna að efnt var til samkeppni á meðal íbúa um nafn á húsinu og niðurstaðan varð sú að Hjálmaklettur skal það heita.
Langþráður áfangi náðist í ágúst s.l. þegar fyrsta skóflustunga var tekin að glæsilegri hjúkrunarálmu við Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi. Byggingaframkvæmdir ganga vel, en Byggingarfélagið Borgfirðingar er með verkið og samanstendur félagið af fjölda verktaka í héraðinu. Borgarbyggð fjármagnar framkvæmdir, en ríkið mun greiða um 85% af byggingarkostnaði með leigusamningi við sveitarfélagið á næstu 40 árum. Með tilkomu nýrrar hjúkrunarálmu verður alger bylting í aðbúnaði íbúa á heimilinu. Það er stjórn Dvalarheimilis aldraðra í Borgarnesi sem stýrir byggingarframkvæmdum, en heimilið er rekið af Borgarbyggð, Skorradalshreppi, Eyja- og Miklaholtshreppi og Kvenfélagasambandi Borgarfjarðar.
Miklar breytingar hafa undanfarið orðið á atvinnulífinu í Borgarbyggð, en nokkrar af mikilvægustu atvinnurgreinum héraðsins hafa átt undir högg að sækja eftir efnahagshrunið. Það var því ánægjulegt þegar að heimaaðilum tókst að tryggja að starfsemi Límtrés-Vírnets héldist óbreytt í Borgarnesi. Einnig var það afar ánægjuleg niðurstaða þegar ljóst varð að Háskólinn á Bifröst yrði áfram sjálfstæður skóli, en mikilvægi skólans sem og Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri er gríðarlega mikið fyrir héraðið. Sveitarfélagið lagði lóð á vogarskálar í þessari baráttu og var ánægjulegt að starfa með þeim öflugu aðilum sem þar komu að málum.
Eins og undanfarin ár hefur verið unnið afar gott starf í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins á árinu. Það hefur verið gaman að fylgjast með hversu vel sameining Grunnskóla Borgarfjarðar og Varmalandsskóla hefur gengið, þar hafa allir lagst á eitt um að búa til góðan skóla. Borgarbyggð er sannarlega skólahérað og við eigum að hafa metnað til að bjóða upp á gott skólastarf og standa vörð um okkar menntastofnanir. Undanfarna mánuði hefur staðið yfir undirbúningur á yfirtöku á málefnum fatlaðra af ríkinu, af hálfu Borgarbyggðar, í samstarfi við önnur sveitarfélög á Vesturlandi. Við tilflutninginn sem verður 1. janúar 2011 mun sveitarfélagið taka yfir þjónustu við fatlaða íbúa, auk þess sem á annan tug starfsmanna Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Vesturlandi mun flytjast yfir til sveitarfélagsins. Ég býð nýtt starfsfólk velkomið til starfa um leið og öllu starfsfólki Svæðiskrifstofu eru þökkuð góð störf á Vesturlandi og gott samstarf. Starfsfólk Borgarbyggðar mun leggja sig fram um að veita fötluðum íbúum í sveitarfélaginu góða þjónustu.
Í upphafi nefndi ég að undanfarið hefur Borgarbyggð búið við erfiða fjárhagsstöðu sem um margt hefur sett svip sinn á starfsemi sveitarfélagsins og samfélagið allt. En öll él birtir upp um síðir. Glæsilegt unglingalandsmót sem fram fór í Borgarnesi s.l. sumar sýndi okkur fram á að okkur eru allar leiðir færar ef við íbúarnir stöndum saman. Hlýlegt viðmót, óbilandi vinnusemi félaga í íþróttahreyfingunni, glæsileg aðstaða og einstakt veður gerði mótið að ógleymanlegum viðburði . Viðburður eins og unglingalandsmótið blæs okkur í brjóst bjartsýni og trú á það samfélag sem við byggjum.
Ég óska íbúum Borgarbyggðar gleðilegs nýs árs og þakka ykkur ánægjuleg samskipti og samstarf á árinu sem er að kveðja.
 
Páll S. Brynjarsson
sveitarstjóri

Share: