Verndarsvæði búsvæðis fugla í Andakíl

júní 26, 2018
Featured image for “Verndarsvæði búsvæðis fugla í Andakíl”

Undanfarið hafa fulltrúar Umhverfisstofnunar, Borgarbyggðar, Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og landeigenda unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir búsvæði fugla í Andakíl. Tillaga að áætluninni er hér með lögð fram til kynningar. Verndarsvæðið í Andakíl var friðlýst sem búsvæði blesgæsa árið 2002 en var stækkað árið 2011 og er nú friðlýst sem búsvæði fugla samkvæmt auglýsingu í Stjórnartíðindum, nr. 338/2011. Svæðið er einn af mikilvægustu áningarstöðum grænlenska blesgæsastofnsins á Íslandi. Árið 2013 var svæðið skráð á lista Ramsar yfir alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði. Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir verndarsvæðið í Andakíl er ætlað að vera stefnumótandi skjal, unnið í samvinnu við sveitarfélag og landeigendur og er hugsuð sem stjórntæki til að móta framtíðarsýn fyrir svæðið. Markmiðið með gerð hennar er að leggja fram stefnu um verndun svæðisins og hvernig viðhalda skuli verndargildi svæðisins þannig að sem mest sátt ríki um. Tillögu að stjórnunar- og verndaráætluninni ásamt frekari upplýsingum um verkefnið og hvernig hægt er að skila inn ábendingum og athugasemdum. Frestur til að skila inn ábendingum og athugasemdum er til og með 9. ágúst 2018. Fólk er hvatt til að kynna sér verkefnið og senda inn athugasemdir og ábendingar.  Nánari upplýsingar veita Guðbjörg Gunnarsdóttir, gudbjorg@umhverfisstofnun.is, og Hildur Vésteinsdóttir, hildurv@umhverfisstofnun.is, eða í síma 591-2000.


Share: