Vel heppnuð æskulýðshátíð

nóvember 20, 2006
Árleg Forvarnar- og æskulýðshátíð unglinga var haldin í íþróttamiðstöðinni Borgarnesi fimmtudaginn 9. nóv. s.l. Um 300 unglingar úr skólum og félagmiðstöðvum af Vesturlandi og víðar að skemmtu sér hið besta á þessari frábæru hátíð sem tókst einstaklega vel.
Hátíðin er með öllu vímuefnalaus og er skipulögð og framkvæmd að öllu leyti eins og unglingarnir sjálfir vilja sjá forvarnardag sem þennan. Forvarnarslagorð sem unglingar í Óðali höfðu samið og gert í vikunni áður voru út um allt hús.
Veðrið var reyndar ekki eins og best var á kosið og hættu fimm skólar og félagsmiðstöðvar við að koma vegna þess hve veðurspá var slæm. Kvöldvaka var haldin þótt skemmtiatriði væru í færri kantinum í ár. Áberandi var hve margar efnilegar unglingahljómsveitir tróðu upp og greinilega er að skila sér inn í tónlistarflóruna sú hljómsveitaraðstaða sem víða er búið að koma upp fyrir unglinga í félagsmiðstöðvum og skólum á síðustu árum.
Við komu í húsið fengu allir unglingarnir merki í barminn með slagorði á í tilefni dagsins sem var að þessu sinni „Ég elska lífið – nei þýðir nei“. Á það að vísa til þess að í dag eru ótal tækifæri fyrir unglinga til að iðka jákvæðar og skemmtilegar tómstundir og unglingar eiga að vera það vel upplýstir í nútíma samfélagi að þeir eiga stoltir að geta sagt nei við þeim fjölmörgu neyslutilboðum og öðru áreiti sem beinist að þeim í auknum mæli.
Mikið var dansað og var það hljómsveitin Eins og hinir sem lék fyrir dansi.
Unglinum og starfsfólki Óðals ber að hrósa fyrir framtakið svo og öllum þeim frábæru unglingum sem mættu á forvarnarballið.

Share: