Hér er ítrekuð frétt frá því í byrjun desember, þar sem slökkviliðsstjóri Borgarbyggðar, Bjarni Þorsteinsson, hvetur til sérstakarar aðgæslu á þessum vikum þegar mikið er um alls konar jólaskreytingar og notkun flugelda. Hér á eftir fer listi hans um nokkur atriði sem fólk þarf að hafa sérstaklega í huga um jól og áramót:
- Reykskynjarar – það er góð vinnuregla að skipta um rafhlöður í þeim í desember ár hvert.
- Handslökkvitæki – að þau séu til á öllum heimilum og yfirfarin reglulega.
- Raflagnir – varast skal að ofhlaða raflagnir með lélegum fjöltengjum og skreytingum.
- Fjöltengi – ávalt skal nota viðurkennd fjöltengi með slökkvara og gaumljósi.
- Eldvarnarteppi – slíkt á að vera í hverju eldhúsi.
- Útgönguleiðir – gera þarf flóttaáætlun á hverju heimili ef til hættuástands kynni að koma.
- Kertaljós – Varúðar skal gæta nálægt logandi ljósum, kertaljósum og skreytingum.
- Aðgæsla – gæta skal þess að hvergi sé logandi á kerti ef íbúðarhúsnæði er yfirgefið.
- Kerti í gluggum – logandi kerti skal aldrei hafa í gluggum.
- Raforkan – dreifa skal raforkunotkun við matseld um jól og áramót vegna álags á dreifikerfið.
- Flugeldar – Nauðsynlegt er að hafa ullar- eða skinnvettlinga á höndum og öryggisgleraugu þegar flugeldum er skotið á loft um áramót.
- Neyðarþjónusta – hringja skal í 112 ef voða ber að höndum.