Val á íþróttamanni Borgarbyggðar 2012

desember 10, 2012
Komið er að vali á íþróttamanni Borgarbyggðar fyrir árið 2012. Þetta verður jafnframt í síðasta sinn sem tómstundanefnd Borgarbyggðar stendur fyrir vali á íþróttamanni ársins en frá og með árinu 2013 mun UMSB sjá um það fyrir hönd sveitarfélagsins.
Eins og fram kemur í reglugerð um val á íþróttamanni Borgarbyggðar skulu tilnefningar koma frá öllum ungmennafélögum í Borgarbyggð og einnig frá stjórnum félaga sem eru innan vébanda ÍSÍ í Borgarbyggð. Hvert ungmennafélag skal tilnefna einn íþróttamann fyrir hverja grein sem stunduð er hjá viðkomandi félagi.
Stjórnir deilda beðnar að koma tilnefningu á sérstöku eyðublaði til fræðslustjóra í Ráðhúsi Borgarbyggðar í síðasta lagi föstudaginn 4. janúar 2013. Tilnefningar sem berast eftir það verða ekki teknar til greina. Vinsamlegast hafið eins nákvæmar upplýsingar um íþróttamanninn og unnt er. Jafnframt skal taka það fram ef landsliðsfólk var innan félagsins á árinu 2012, en sérstaklega eru veittar viðurkenningar fyrir landsliðssæti á árinu. Tómstundanefnd Borgarbyggpar velur íþróttamann hverrar greinar úr innsendum tilnefningum og keppir viðkomandi þar með um sæmdarheitið íþróttamaður Borgarbyggðar 2012.
Kjör íþróttamanns Borgarbyggðar hefur mælst vel fyrir hjá íþróttafólki og er hugsað sem hvatning til frekari dáða hjá því fólki og sem hvatning til eftirbreytni yngri iðkenda. Félagslegur þroski íþróttamannsins og það að vera öðrum hvatning og fyrirmynd skal ekki síður metin við val þetta.
Útnefning á íþróttamanni ársins fer fram í janúar 2013. Athöfnin verður auglýst síðar.
Ásthildur Magnúsdóttir fræðslustjóri
 
 

Share: