Úthlutað úr Minningarsjóði Þorvalds Finnbogasonar

desember 28, 2009
Nanna Einarsdóttir
Úthlutað var úr Minningarsjóði Þorvalds Finnbogasonar stúdents við hátíðlega athöfn í Skólabæ mánudaginn 21. desember síðastliðinn. Styrkinn hlaut að þessu sinni Borgnesingurinn Nanna Einarsdóttir, BS-nemi í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands. Styrkurinn fellur í skaut þeim verkfræðistúdent sem hæsta meðaleinkunn hefur eftir tvö fyrstu árin í grunnnáminu en Nanna hlaut 9,88 í einkunn. Nanna lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík vorið 2007. Foreldrar hennar eru Guðrún Jónsdóttir og Einar Guðbjartur Pálsson í Borgarnesi.
Minningarsjóður Þorvalds Finnbogasonar stúdents var stofnaður af foreldrum hans, Sigríði Eiríksdóttur og Finnboga Rúti Þorvaldssyni, fyrrverandi forseta verkfræðideildar Háskóla Íslands, á 21 árs afmæli Þorvalds, þann 21. desember 1952. Tilgangur sjóðsins er að styrkja efnilega stúdenta til framhaldsnáms í verkfræði.
Stjórn sjóðsins skipa frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands og Kristín Vala Ragnarsdóttir, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands.
 

Share: