Spáin er unnin af dr. Vífli Karlssyni, hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi. Byggðaráð Borgarbyggðar samþykkti í september sl. að láta vinna mannfjöldaspá fyrir Borgarbyggð til ársins 2025 þar sem einnig yrði spáð fyrir um aldursdreifingu. Í skýrslunni er einnig að finna stutta umfjöllun um sögulega íbúaþróun og fæðingartíðni í Borgarbyggð, vænta þróun atvinnulífsins, samgangna, fjarskipta og höfuðborgarsvæðisins.
Spáin kveður á um tæplega 30 íbúa fækkun í dreifbýli Borgarbyggðar en rúmlega 500 íbúa fjölgun í Borgarnesi fram til ársins 2025. Þetta er um 2,4% árleg íbúafjölgun að jafnaði en 0,6% fækkun árlega í dreifbýli Borgarbyggðar.Íbúum á aldrinum 0-14 ára mun fækka um 42 á næstu 10 árum í dreifbýlinu (-11,7%) en fjölga í Borgarnesi um 57 (+15,5%). Fækkunin í dreifbýlinu er mun vægari en rauntölur undangenginna 10 ára gefa til kynna, eða nærri innan við þriðjungur af þeim tölum. Hins vegar er þetta viðsnúningur hjá Borgarnesi úr 7% samdrætti í áðurnefnda fjölgun. Skýrsluna í heild sinni er hægt að nálgast hér.
Spáin er samsett og byggir heildarmannfjöldaspáin á AR-líkani en aldursdreifingarspáin byggir á hermilíkani. Hermilíkanið tekur tillit til núverandi mannfjölda, aldursdreifingar, fæðingartíðni og dánartíðni og þróun þeirra á árunum 2000-2014. AR-líkanið er tölfræðilíkan (e. Auto Regressive) sem byggir á íbúafjölda og hagvaxtarþróun frá 1971-2014 ásamt sérstökum viðburðum sem ætla mætti að kynnu að hafa áhrif á íbúaþróun Borgarbyggðar. Þann 1. janúar árið 2014 voru íbúar 3.542 í Borgarbyggð. Samkvæmt hófstilltri spá mun fólki fjölga um 500 á milli áranna 2015-2025 – fjölga um nærri 530 í Borgarnesi en fækka lítið eitt í dreifbýli Borgarbyggðar. Það jafngildir árlegum vexti upp á 2,4% í Borgarnesi en 0,6% fækkun í dreifbýlinu. Spáin byggir á hagvaxtarþróun ASÍ: 3,7% árið 2015, 3,5% 2016, 3,2% 2017 og 2,5% að jafnaði eftir það til 2025. Spálíkanið hefur verið í þróun frá árinu 2001 þegar fyrsta mannfjöldaspáin var unnin fyrir Akranes. Síðan hafa verið unnar fimm spár, þrjár fyrir Akranes og tvær fyrir Borgarbyggð. Nákvæmni líkansins ætti að hafa aukist til muna – einkum er varðar aldursdreifingu íbúanna. Í síðustu spá komu áhrif bankahrunsins og framkvæmdanna árið 1998 á Grundartanga sem og Hvalfjarðargöngin illa fram. Þau áhrif eru mikilvæg í spánni um heildarmannfjölda á þessu svæði.