Útboð v. ljósleiðara

september 14, 2018
Featured image for “Útboð v. ljósleiðara”

Útboð fyrir lagningu ljósleiðara í dreifbýli Borgarbyggðar var auglýst af Ríkiskaupum þann 31. ágúst sl. Í tengslum við auglýsingu útboðsins var hönnun á legu ljósleiðarakerfisins birt á kortasjá Borgarbyggðar sem er að finna á vef sveitarfélagsins (borgarbyggd.is). Þar segir eftirfarandi:

„Hönnun á legu ljósleiðarakerfisins er nú aðgengileg á kortasjá sveitarfélagsins. Í val glugga hægra megin á kortasjánni er valinn reiturinn Ljósleiðari og þá birtast hugmyndir af lagnaleiðum. Rétt er að taka fram að um hönnunargögn er að ræða og allar ábendingar um fyrirliggjandi inniviði sem hugsanlega má nýta svo og heppilegri lagnaleiðir en þarna koma fram eru vel þegnar og slíkum ábendingum verður afar vel tekið.  Hægt er að koma slíkum ábendingum á framfæri hér. Viðræður við landeigendur fara fram þegar nær dregur framkvæmdum á hverju svæði fyrir sig. Ábendingar og góð ráð frá landeigendum eru mikils virði og fullt tillit verður tekið til þeirra óska sem fram koma í þeim samtölum. Tekið skal fram að þeir tengistaðir sem fram koma svo og hugmyndir af lagnaleiðum eru settar eftir bestu vitund. Þátttaka eigenda tengistaða svo og þær reglur sem um tengingar gilda ráða að endingu hvaða staðir verða tengdir.“

Landeigendur, umráðamenn lands og íbúar í dreifbýli Borgarbyggðar eru hvattir til að skoða hönnunina á legu ljósleiðarakerfisins eins og hún liggur fyrir á kortasjánni á vef Borgarbyggðar. Ef þeir hafa ábendingar um einhver atriði sem betur mega fara að þeirra mati bæði hvað varðar lagnaleiðina og tengingu við einstök hús þá eru þeir hvattir til að senda ábendingar þar um til sveitarfélagsins (afgreidsla@borgarbyggd.is) eða til Guðmundar Daníelssonar ráðfgjafa við ljósleiðaraverkefnið (gudmundur@snerra.com). Guðmundur mun fara yfir allar innkomnar ábendingar og færa að því loknu lagfæringar inn í hönnunargögnin á kortasjánni í þeim tilvikum sem það er nauðsynlegt. Þessi aðferð er valin til að auðvelda undirbúningsvinnu og samráð við íbúana við útfærslu lagnaleiðarinnar og tengingu við einstaka tengipunkta eins og fært var. Þegar líður að plægingu ljósleiðarans verður hin endanlega lagnaleið nákvæmlega ákveðin og fastmótuð í samráði við einstaka landeigendur og íbúa á hverju svæði.

Með góðri kveðju og ósk um gott samstarf við þetta verkefni.

Gunnlaugur Júlíusson


Share: