Til upplýsingar fyrir íbúa Borgarbyggðar:
Komið hafa upp tilvik að undanförnu þegar íbúar í Borgarbyggð hafa orðið fyrir óþægindum og ónæði vegna þess að ferðafólk tjaldar innan þéttbýlisins, gistir í húsbýlum og gistibifreiðum á lóðum sveitarfélagsins og á öðrum opnum svæðum og gengur að öðru leyti illa um á ýmsan hátt. Enda þótt hér sé vitaskuld um undantekningar að ræða þá er engin ástæða til að láta slíka hegðan óátalda. Ef ekki er brugðist við þá getur byggst upp það orðspor að hér sé margt leyfilegt umfram það sem almennt gerist innan þéttbýlis í landinu.
Í lögreglusamþykkt fyrir Borgarbyggð frá 2009 segir eftirfarandi:
Í 2. gr. segir:
Enginn má áreita aðra á almannafæri eða sýna þar af sér ósæmilega hegðun. Ekki má á almannafæri fletta sig klæðum eða kasta af sér þvagi eða losa af sér saur.
Í 4. gr. segir:
Lögreglan getur vísað þeim mönnum í burtu af almannafæri, sem valda vegfarendum eða íbúum í nágrenninu ónæði. Sama á við um þá sem valda óspektum, hættu eða hneykslan á almannafæri sökum ölvunar eða af öðrum ástæðum.
Í 6. gr. segir:
Eigi má gista í tjöldum, húsbílum, hjólhýsum eða tjaldvögnum á almannafæri í þéttbýli utan sérmerktra svæða.
Rétt er að benda á að ákvæði 6. gr. gildir einvörðungu fyrir þéttbýlið í Borgarbyggð.
Verði íbúar varir við háttsemi eins og þá sem að framan greinir er rétta leiðin að tilkynna hana til lögreglu eins og önnur brot á lögreglusamþykkt fyrir sveitarfélagið. Reglur eru til að farið sé eftir þeim.
Gunnlaugur Júlíusson sveitarstjóri