Úrbætur á stjórnsýslu sveitarfélagsins og álit samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins

ágúst 23, 2021
Featured image for “Úrbætur á stjórnsýslu sveitarfélagsins og álit samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins”

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið taldi ekki ástæðu til að gefa Borgarbyggð fyrirmæli um að koma stjórnsýslu sinni í lögmætt horf þar sem sveitarfélagið upplýsti ráðuneytið um margvíslegar úrbætur sem eiga að koma í veg fyrir að annmarkarnir endurtaki sig.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið ákvað að kanna hvort sveitarfélagið gætti nógu vel að eftirlitsskyldu sinni til að tryggja að stjórnsýsla sveitarfélagsins væri í samræmi við lög. Var þetta gert m.t.t. athugasemda sem gerðar voru við ráðuneytið í fjórum málum sem eiga uppruna sinn frá árunum 2015-2017. Í áliti samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins sem var gefið út 18. ágúst sl. kemur fram að í ljósi þeirra aðgerða sem sveitarfélagið hefur gripið til að tryggja að stjórnsýsla sveitarfélagsins sé í samræmi við lög, þá telji ráðuneytið ekki tilefni til að ljúka álitinu með fyrirmælum til sveitarfélagsins. Sveitarfélagið mun gefa ráðuneytinu upplýsingar í upphafi árs 2022 um stöðu þeirra úrbóta sem sveitarfélagið hefur gripið til og mat sveitarstjórar á því hvort að til hafi tekist að koma í veg fyrir þá kerfisbundnu annamarka sem voru í skipulags- og byggingarmálum sveitarfélagsins.

Á árinu 2020 var kláruð úttekt á stjórnsýslu þess sviðs sem nú heyrir undir skipulags- og byggingardeild Borgarbyggðar. Í kjölfar úttektarinnar voru gerðar breytingar á skipuriti sveitarfélagsins með breyttum áherslum og úrbótaáætlun sett fram. Skipulags- og byggingardeild var stofnuð undir stjórnsýslu- og þjónustusviði. Ráðinn var lögfræðingur með mikla reynslu af stjórnsýslurétti yfir stjórnsýslu- og þjónustusvið. Stöðugildum í skipulags- og byggingardeild hefur verið fjölgað, samstarf skipulagsfulltrúa annars vegar og byggingarfulltrúa hins vegar aukið og hlutverk og ábyrgð þjónustuvers í afgreiðslu skipulags- og byggingarmála aukið.

Ráðinn hefur verið gæða- og mannauðsstjóri sem vinnur ásamt sviðsstjóra stjórnsýslu- og þjónustusviðs, deildarstjóra skipulags- og byggingardeildar og öðrum starfsmönnum að gæðahandbók og verkferlum fyrir deildina.

Það er því í gangi mikil umbótavinna hjá sveitarfélaginu, með áherslu á skipulags- og byggingarmál, gerð verkferla og breytt vinnubrögð til þess að koma í veg fyrir að þá kerfisbundnu annmarka sem hafa verið á þessum málaflokk haldi áfram. Þetta er langtímaverkefni sem breytist ekki á einni nóttu.

 


Share: