Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur ákveðið að leigja húsnæði af Háskólanum á Bifröst fyrir móttökustöð fyrir flóttafólk frá Úkraínu þar sem fólk mun dvelja á meðan varanlegra búsetuúrræði er fundið. Gert er ráð fyrir komu allt að 150 manns að Bifröst frá og með byrjun apríl og mun fólkið dvelja þar í allt að 12 vikur.
Fjölskyldusvið Borgarbyggðar skipuleggur móttöku og sér um þjónustu við gesti sveitarfélagsins og verið er að ganga frá samningum við ráðuneytið um fjármögnun. Stýrihópur um móttökuna hefur verið að störfum síðustu tvær vikur og er búið að ráða Heiðrúnu Helgu Bjarnadóttur, sem mun halda utan um verkefnið. Heiðrún Helga er með embættispróf í guðfræði frá Háskóla Íslands, auk þess sem hún hefur meistaragráðu í trúarlífsfélagsfræði frá Kaupmannahafnarháskóla. Heiðrún vann með flóttafólki og innflytjendum í Kaupmannahöfn um árbil, meðal annars við fræðslu og ráðgjöf. Auk þess hefur hún reynslu af verkefnastjórnun og þróaði og útfærði verkefni sem hafði það að markmiði að byggja brú milli flóttafólks og samfélagsins sem tók á móti þeim.
Í stýrihópnum eru aðilar frá Borgarbyggð, Háskólanum á Bifröst, Rauða Krossinum og Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Þá er einnig gott samstarf við ýmsa aðila, t.d. UMSB um íþróttir- tómstundir, Ferðafélag Borgarfjarðar, Símenntun Vesturlands og Fjölmenningasetrið.
Ekki er vitað um samsetningu hópsins, þ.e. hversu margir fullorðnir eða börn koma að Bifröst. Þar sem reiknað er með að hámarki 12 vikna dvöl á Bifröst verður sett upp kennsla fyrir börn á grunnskólaaldri á Bifröst, í samvinnu við úkraínska fjarkennara og Grunnskóla Borgarfjarðar. Börn á leikskólaaldri fá leikskólapláss á Hraunborg eða sett verður upp sérstök aðstaða á Bifröst til að taka á móti þeim í samvinnu við Hjallastefnuna.
Verið er að skoða útfærslur á aðra þjónustu sem gestir eiga rétt á og er nauðsynleg til að dvölin á Bifröst verði þeim góð, s.s. fæði, samgöngur, túlkaþjónustu, tómstundir og afþreyingu, fræðslu, framfærslu/fjárhagsaðstoð og þjónustu sérfræðinga.
Það er greinilegt að samfélagið er boðið og búið að aðstoða við að gera dvöl gesta okkur hér eins góða og hægt er og hafa margir sent fyrirspurnir um hvernig eigi að koma á framfæri boði um aðstoð og gjafir.
Skiptingin er þannig að Bifröst sér um innanstokksmuni, þ.e. allt sem lýtur að húsnæði og húsbúnaði þ.m.t. eldhúsáhöld, sængur og sængurfatnað. Þau sem hafa hug á að svara kalli um innanstokksmuni eru beðin um að senda tölvupóst á ukraina@bifrost.is með upplýsingum um nafn og símanúmer og það sem gefa á til verkefnisins. Vinsamlegast athugið að ekki er tekið við fötum á Bifröst.
Rauði krossinn mun halda utan um sjálfboðaliðastarf og söfnun á öðru en innanstokksmunum, s.s. fatasöfnun og sendir fljótlega út upplýsingar um hvernig fólk snýr sér í að bjóða fram gjafir. Hægt er að skrá sig sem sjálfboðaliða á síðu RKÍ – sjá hér.
Vegna annarra upplýsinga má senda tölvupóst til Heiðrúnar Helgu á ukraina@borgarbyggd.is.