Ungmennafélag Reykdæla hundrað ára – afmælishátíð í Logalandi

júní 9, 2008
Ungmennafélag Reykdæla í Borgarfirði fagnar nú hundrað ára afmæli en félagið var stofnað í Deildartungu á sumardaginn fyrsta árið 1908. Félagið er síungt og starfar enn af fullum krafti.
Félagið á og rekur félagsheimilið Logaland í Reykholtsdal. Logaland hefur frá upphafi verið alfarið í eigu félagsins og þar hafa félagsmenn iðkað leiklist nánast frá stofnun félagsins, staðið fyrir ýmisskonar skemmtunum og dansleikjum, yngri deildar starfi, bókasafn Reykdæla er í húsinu og svo mætti lengi telja. Þá stendur Ungmennafélag Reykdæla fyrir reglubundnum íþróttaæfingum árið um kring.
Í tilefni afmælisins munu félagsmenn standa fyrir veglegri veislu í Logalandi á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Dagskráin hefst árdegis með hópreið til messu í Reykholti. Að messu lokinni verður þjóðleg hangikjötsmáltíð í Logalandi. Eiginleg afmælisdagskrá hefst svo kl. 15:00 með formlegri vígslu nýbyggingu við Logaland. Sr. Geir Waage sóknarprestur í Reykholti flytur húsblessun. Skemmtidagskrá verður bæði innan og utanhúss. Á dagskrá verður m.a. Reykholtskórinn, hin nýstofnaða hljómsveit Brot en hana skipa nemendur úr tónlistarskóla Borgarfjarðar, Jóhanna Guðrún lítur við, fjallkonan les ljóð, ávörp gesta, farið verður í leiki og þrautir á flötinni við Logaland og hin ómissandi og um leið nokkuð ógnvekjandi karamelluflugvél verður á sveimi.
Að kvöldi 16. júní mun hin þingeyska gleðistórsveit Ljótu hálfvitarnir halda tónleika í Logalandi en það eru fyrstu opinberu tónleikar hljómsveitarinnar á Vesturlandi. Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og miðasala opnar hálftíma fyrr.
Ungmennafélag Reykdæla býður alla félagsmenn fyrr og síðar, sem og aðra velunnara félagsins velkomna til afmælishátíðar. Það er einlæg ósk félagsmanna að sem flestir sjái sér fært að koma og fagna þessum merka áfanga í sögu félagsins, njóta afmælisdagskrár og þiggja kaffiveitingar.
 
(Fréttatilkynning)
 

Share: