Unglingar úr Borgarbyggð sigruðu Söngkeppni Vesturlands

janúar 28, 2010
Söngkeppni félagsmiðstöðva á Vesturlandi var haldin í félagsmiðstöðinni Grundarfirði í gær miðvikudag. Þar mættu fulltrúar félagsmiðstöðva af Vesturlandi til að keppa um tvö sæti í Söngkeppni Samfés sem verður á stóra sviðinu í Laugardalshöll í mars. Keppni þessi var sérlega vel heppnuð og frábær atriði flutt enda forkeppnir búnar í félagsmiðstöðunum á Vesturlandi og sigurvegarar þeirra þarna saman komnir til að skera úr um það hvaða tvö atriði færu áfram á sjálfa Samfés landskeppnina.
 
 
Það voru unglingar úr dreifbýlisfélagsmiðstöðunum Hósiló og Mófó í Borgarbyggð sem slógu í gegn að þessu sinni þegar Steinunn Þorvaldsdóttir frá Hjarðarholti, nemandi í 10. bekk Varmalandsskóla sigraði í keppninni en hún söng lag úr teiknimyndinni Anastasía.
Í örðu sæti urðu þær Sigrún Rós Helgadóttir, Klara Sveinbjörnsdóttir, Íris Ragnarsdóttir Pedersen og Elsa María Vignisdóttur úr Grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum sem fluttu lagið Black horse and the Cherry tree. Það voru systurnar Klara og Kristrún Sveinbjörnsdætur sem snöruðu textanum yfir á íslensku og heitir það nú „Heil án þín.“
Unglingar úr félagsmiðstöðinni Óðal fluttu að sjálfsögðu einnig þarna sín atriði sem vöktu athygli fyrir „live“ undirspil og góða raddsetningu.
Sem sagt það verða unglingarnir úr Borgarbyggð sem verða fulltrúar Vesturlands á Samfés hátíðinni þann 6. mars í Laugardalshöll þar sem söngfuglarnir okkar þurfa að syngja fyrir framan 5.000 áhorfendur.
Já unglingarnir okkar eru alltaf að gera góða hluti.
Innilega til hamingju.
ij
 

Share: