Ungir nemendur Tónlistarskólans fá viðurkenningu

apríl 12, 2013
Nokkrir nemendur Tónlistarskólans fóru til Ísafjarðar fyrir stuttu og komu þar fram á Nótu-tónleikum sem eru hluti uppskeruhátíðar tónlistarskólanna á Íslandi. Þar á meðal var samspilshópurinn Ísleifur sem lék og söng frumsamið efni undir stjórn Ólafs Flosasonar. Stóð hópurinn sig frábærlega vel og fékk viðurkenningu fyrir frumsamið tónverk á grunnstigi. Efniviðurinn að verkinu er óvenjulegur; frásögn í gamla þuluforminu um ólánsmennina á Auðnustöðum, eftir skáldkonuna Guðrúnu Jóhannsdóttur (1912-1970) sem var frá Sveinatungu í Norðurárdal.
Verkið sem krakkarnir sömdu og fluttu undir stjórn kennara síns er afrakstur af samstarfi Safnahúss og Tónlistarskólans í vetur, þar sem unnið var með þulur eftir Guðrúnu. Krökkunum og kennara þeirra er óskað innilega til hamingju með árangurinn og er einkar ánægjulegt að unga fólkið skuli vinna með gamlan menningararf með þessum hætti.
 
Þriðji og lokahluti Nótunnar fer fram með tónleikum á landsvísu sem verða haldnir í Eldborg í Hörpu sunnudaginn 14. apríl.
Á myndinni sjést unga tónlistarfólkið: Lengst til vinstri er rapparinn Guðjón Snær Magnússon, við píanóið er Stella Dögg Blöndal, svo eru bakraddirnar Guðrún Helga Tryggvadóttir og Hrafnhildur Einarsdóttir, Pétur Snær Ómarsson á gítar og Árni Hrafn Hafsteinsson á bassa.
Myndataka: Páll Önundarson

Share: