Næstkomandi þriðjudag, þann 24. nóvember kl. 20:30, mun Bragi Halldórsson flytja fyrirlestur í bókhlöðusal Snorrastofu. Fyrirlesturinn er í röðinni Fyrirlestrar í héraði og nefnist: „“Misjafnt fljúga fuglarnir“. Hjálmar hugumstóri og Ingibjörg konungsdóttir í rímum síðari alda.“Í fyrirlestrinum verður fjallað um hvernig fjölmörg skáld allt frá miðri 17. öld fram til 1960 ortu rímur út frá ástarsögu Hjálmars hugumstóra og Ingibjargar konungsdóttur út frá tveimur fornaldarsögum, Örvar-Odds sögu og Hervarar sögu og Heiðreks konungs. Sama eða svipað söguefni birtist einnig í sagnakvæðum um öll Norðurlönd allt fram á 19. öld. Í rímum tók efnið miklum breytingum á 19. öld, m.a. vegna áhrifa frá rómantísku stefnunni í bókmenntum og lifði að lokum sjálfstæðu lífi í rímum.
Bragi er íslenskukennari í Menntaskólanum í Reykjavík og er með MA-próf í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands.
Fyrirlesturinn er öllum opinn, aðgangseyrir er 500 kr. Boðið er upp á veitingar í hléi.
Viðburðurinn er styrktur af Menningarráði Vesturlands.