Umbótavinna í skipulags- og byggingardeild

október 21, 2022
Featured image for “Umbótavinna í skipulags- og byggingardeild”

Í september voru gerðar skipuritsbreytingar hjá sveitarfélaginu, nánar tiltekið á skipulags- og byggingardeild. Mikið og langvarandi álag hefur verið á þessari deild sveitarfélagsins í takt við fjölgun verkefna og afgreiðslu erinda í hverjum mánuði. Það lá því fyrir í sumar að til að halda uppi góðu og markvissu þjónustustigi fyrir íbúa Borgarbyggðar þyrftu breytingar að eiga sér stað.

Ákveðið var að sviðsstjóri stjórnsýslusviðs tæki við yfirstjórn deildarinnar. Fyrrum deildarstjóri skipulags- og byggingardeildar vinnur í dag í sérverkefnum á sviði stærri framkvæmda og áætlana sveitarfélagsins. Auk þess fékkst heimild sveitarstjórnar til að auka stöðugildi hjá skipulagsfulltrúa um einn verkefnastjóra og hefur nú þegar verið ráðið í það starf tímabundið. Til viðbótar var ábyrgðarsviði annars starfsmann á deildinni breytt og starfar viðkomandi nú eingöngu undir skipulagsfulltrúa.

Samhliða þessum breytingum var einnig skerpt á vinnulagi, verkefnaskiptingu og verkferlum á deildinni sem verða til þess að einstök mál hljóti hraðari afgreiðslu en áður hefur verið. Var það til að mynda gert með breytingu á viðaukum við samþykkt Borgarbyggðar sem veita bæði skiplagsfulltrúa og skipulags- og byggingarnefnd heimild til fullnaðarafgreiðslu ákveðinna mála sem áður þurftu samþykkt sveitarstjórnar. Auk þess hefur öll vinna á deildinni verið straumlínulöguð sem verður til þess að afgreiðsla mála, skjalavistun og úrvinnsla umsókna er nú einfaldari og markvissari en áður.

Áfram verður unnið að þróun umbótaverkefna á næstu mánuðum og eru verkferlar deildarinnar í stöðugri endurskoðun.


Share: