Tveir kappar kvaddir og tveir heiðraðir

október 8, 2007
Við vígslu slökkvistöðvarinnar í Reykholti föstudaginn 5. október var þeim Pétri Jónssyni og Guðmundi Hallgrímssyni þökkuð vel unnin störf sem slökkviliðsstjórar Slökkviliðs Borgarfjarðardala, sem nú hefur verið lagt niður. Slökkvilið Borgarbyggðar hefur tekið við hlutverki þess, eins og segir í frétt hér á heimasíðunni frá 3. október.
Pétur Jónsson hefur starfað hjá Slökkviliði Borgafjarðardala í 30 ár og hættir nú að eigin ósk. Guðmundur Hallgrímsson hefur gengt starfi þar lítið skemur. Hann kemur nú til með að gegna starfi slökkviliðsmanns hjá Slökkviliði Borgarbyggðar. Tveir slökkviliðsmenn hjá Slökkviliði gömlu Borgarbyggðar voru heiðraðir, en þeir munu báðir halda áfram störfum hjá slökkviliðinu. Þetta eru þeir Þorsteinn Eyþórsson sem starfað hefur hjá slökkviliðinu í rúm 30 ár og Sigurður Þorsteinsson sem starfað hefur hjá slökkviliðinu í rúm 40 ár.
Á myndunum má sjá séra Geir Waage blessa nýju slökkvistöðina í Reykholti. Sveitarstjóra Borgarbyggðar, Pál S. Brynjarsson veita þeim Pétri Jónssyni og Guðmundi Hallgrímssyni þakklætisvott fyrir vel unnin störf hjá Slökkviliði Borgarfjarðardala. Davíð Pétursson á Grund í Skorradal afhenda Bjarna Þorsteinssyni slökkviliðsstjóra Borgarbyggðar lykla af nýjum slökkvibíl sem Borgarbyggð kemur til með að reka.
Myndir: Björg Gunnarsdóttir.
 
 

Share: